Samdráttur í fyrsta sinn í tvö ár

Hálfgerð gullgrafarastemmning hefur ríkt á bílamarkaði í Kína undanfarin ár.
Hálfgerð gullgrafarastemmning hefur ríkt á bílamarkaði í Kína undanfarin ár.

Spurning er hvort bílasölubólan í Kína sé sprungin því í nýliðnum júnímánuði dróst salan saman í fyrsta sinn í að minnsta kosti tvö ár.

Kína hefur verið gósenland fyrir erlenda bílaframleiðendur um margra ára skeið og salan aukist verulega milli ára, yfirleitt um tveggja stafa prósentutölu.

En nú hefur efnahagslífið hægt á sér undanfarið í Kína og sagði það til sín meðal annars í bílasölu í júní. Þá hefur hlutabréfamarkaðurinn þar í landi stórlækkað undanfarna daga og tiltrú neytenda á markaðinn því farið þverrandi.

Því gæti svo verið að bílasala eigi enn eftir að dragast talsvert saman. Í júnímánuði dróst sala á fólksbílum, jeppum og fjölnota bílum saman um 3,2% miðað við sama mánuð fyrir ári.

Ýmsir bílsmiðir, svo sem Volkswagen og General Motors hafa gripið til verðlækkana til að verja hlutdeild sína í kínverska markaðinum sem er þeirra stærsti einstaki markaður á heimsvísu. Það er ekki aðeins að eftirspurn eftir nýjum bílum hafi dregist saman heldur hafa og kínverskir bílsmiðir aukið markaðsskerf sinn á ný, eftir að hafa meðal annars hrúgað á markað jeppum á mjög svo viðráðanlegu verði í þeim tilgangi að laða til baka til sín neytendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina