Fáar hleðslustöðvar Þrándur í Götu rafbíla

Orka náttúrunnar rekur sex hraðhleðslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og fjórar utan …
Orka náttúrunnar rekur sex hraðhleðslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og fjórar utan þess.

Aðeins fjórar hleðslustöðvar fyrir rafbíla eru utan höfuðborgarsvæðisins og engin þeirra er í meira en um klukkustundar akstursfjarlægð frá borginni. Drægi algengra rafbíla er rúmir hundrað kílómetrar þannig að skortur á hleðslustöðvum torveldar ferðalög á þeim um landið.

Á næstu árum mun drægi rafbíla aukast umtalsvert, meðal annars vegna framfara í rafhlöðutækni. Enn sem komið er draga algengar tegundir eins og Nissan Leaf hins vegar um 120 kílómetra á hleðslu og minna við óhagstæðari aðstæður. Það dugar vel við akstur innanbæjar en ef nota á rafbíl til aka á milli landshluta þurfa ökumenn rafbíl að geta hlaðið bílana.

Ætli rafbílaeigendur á Íslandi að ferðast lengra en til Akraness, Selfoss, Borgarness eða Reykjanesbæjar frá höfuðborgarsvæðinu vandast hins vegar málið. Bæjarfélögin fjögur eru þau einu á landinu þar sem sérstakar hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla er að finna utan höfuðborgarsvæðisins.

Hægt er að hlaða alla rafbíla í venjulegri innstungu og tekur það um 4-8 klukkustundir þegar rafhlaða þeirra er alveg tóm, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu rafbílasölunnar Even. Með svonefndum hraðhleðslustöðvum sem sumir rafbílar geta nýtt sér getur bíllinn hins vegar náð 80% hleðslu á hálftíma.

Tíu hraðhleðslustöðvar eru á landinu öllu. Sex þeirra er að finna á höfuðborgarsvæðinu auk þriggja sem eru á Selfossi, Borgarnesi og Reykjanesbæ. Sú fjórða bættist við á Akranesi nú í byrjun júní. Orka náttúrunnar, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, setti upp stöðvarnar en ókeypis er að hlaða rafbíla á þeim enn sem komið er.

Netið þyrfti að vera þétt - enn sem komið er

Gunnar Þór Jónsson keyrir daglega á Nissan Leaf frá Hveragerði þar sem hann býr til Reykjavíkur þar sem hann starfar hjá verkfræðistofunni Mannviti. Hann hefur átt bílinn í rúmt ár og segist sáttur við hann. Hann geti ekið til og frá vinnu á einni hleðslu en hann stingi bílnum þó í samband í vinnunni til að hafa svigrúm til ferða innanbæjar. Skortur á hraðhleðslustöðvum takmarka þó not hans af bílnum í lengri ferðir.

„Ég hef reyndar farið á honum vestur á Búðir á Snæfellsnesi. Það er það lengsta sem ég hef farið á honum. Þá þurfti ég að hlaða hann í Borgarnesi og komst á Búðir en það var orðið tæpt. Þá hefði verið fínt að hafa hleðslustöð þar einhvers staðar en ég gisti í ferðaþjónustu þar og gat fengið að hlaða yfir nótt,“ segir Gunnar Þór.

Til þess að geta ferðast lengra þyrfti net hraðhleðslustöðva að vera nokkuð þétt. Drægi rafbílanna er misjafnt eftir aðstæðum. Þeir fara með meiri orku, líkt og bensínbílar, í bleytu og roki og þegar leiðin er uppi í móti. Þá bendir Gunnar Þór á að ólíkt bensín- og dísilbílunum eyði rafbílarnir meiru í lengri akstri en snatti innanbæjar þar sem þeir hlaða inn á rafhlöðurnar þegar bremsað er.

Þó að netið hleðslustöðvanna þyrfti að vera þétt til að Gunnar Þór kæmist á bílnum til dæmis norður á Akureyri bendir hann á að bensínstöðvar séu nú þegar nánast á hverju götuhorni og þó fari menn mun lengra á bensínbílum en rafbílum.

Drægi rafbíla á einnig eftir að aukast á næstu árum og þá munu ökumenn þeirra þurfa að stoppa sjaldnar til að hlaða ef þeir vilja ferðast landshluta á milli á þeim.

Nýtingin tvöfalt meiri en á sambærilegum stöðum í Noregi

Að sögn Eiríks Hjálmarssonar, talsmanns ON, stendur til að setja upp fleiri hraðhleðslustöðvar en ekki liggi enn fyrir hvar þær verða staðsettar. Fyrirtækið horfi þó meðal annars út fyrir suðvesturhornið þar sem núverandi stöðvar.

Samhliða því verkefni stendur til að uppfæra hraðhleðslustöðvarnar sem fyrir eru þannig að þær geti þjónað fleiri stöðlum hraðhleðslu en þær gera í dag. Undirbúningur þess sé nú í gangi og ætti uppfærslan að hefjast með haustinu.

Eiríkur segir að samkvæmt þeim mælingum sem fyrirtækið hafi gert á nýtingu hraðhleðslustöðvanna þá sé hún um það bil tvöfalt meiri en á sambærilegum stöðum í Noregi þar sem rafbílavæðingin er mun lengra á veg komin en hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina