Rúmlega helmingur ökumanna gaf ekki stefnuljós þegar þeir óku út úr hringtorginu í Fjarðarhrauni til móts við Flata-, Bæjar- og Garðahraun í morgun, í könnun sem framkvæmd var af VÍS. Þó er um að ræða fjölgun frá því fyrir tveimur árum.
Í frétt á vef VÍS kemur fram að 53% þeirra sem óku um hringtorgið í morgun gáfu ekki stefnuljós. Þegar VÍS gerði könnun á sama stað fyrir tveimur árum gáfu 66% ökumanna ekki stefnuljós.
Fjöldi bíla í könnuninni í morgun var 1.136.
„Eitt meginhlutverk stefnuljósa, er að vera öðrum vegfarendum til leiðbeiningar. Notkun á þeim liðkar fyrir umferð og bætir flæði hennar til muna. Einnig minnkar rétt notkun stefnuljósa hættuna á slysum. Það á sérstaklega við í hringtorgum, þegar verið er að skipta um akrein, taka framúr eða beygja út af vegi.
Samgöngustofa hefur spurt í netkönnun hvað hegðun annarra trufli eða valdi viðkomandi mestu álagi við akstur. Í könnun þeirra árið 2013 trjónir stefnuljósaleysi hæst á lista en um 77% nefndu það. Það skýtur því nokkuð skökku við að ríflega helmingur ökumanna noti ekki stefnuljós úti í umferðinni,“ segir í frétt VÍS.