Neytendur njóta varla verðlækkunar á bensíni

Verð á hráolíu hríðlækkar. Eldsneytisverð á Íslandi virðist ekki fylgja …
Verð á hráolíu hríðlækkar. Eldsneytisverð á Íslandi virðist ekki fylgja á eftir. mbl.is/Hjörtur

Verð á hráolíu hefur lækkað um rúmlega helming á undanförnu ári. Á sama tíma hefur eldsneytisverð á Íslandi aðeins lækkað um tæp tíu prósent, ef miðað er við verð á 95 oktana bensíni í júlí í ár og á síðasta ári. Þá hefur verð á díselolíu lækkað um tæp 13 prósent, ef tekið er mið af sama tímabili.

Helmingslækkun heimsmarkaðsverðs gefur þó ekki alveg efni til helmingslækkunar hér á landi, að mati Runólfs Ólafssonar framkvæmdastjóra FÍB. 

„Meira en helmingur af útsöluverði eldsneytis felst í sköttum. Af þeim er aðeins virðisaukaskatturinn prósentutengdur og hinir skattarnir eru því fastar krónutölur.“

Með kolefnisgjaldi, sérstöku og almennu bensíngjaldi, og loks virðisaukaskatti, fer rúmur helmingur útsöluverðs eldsneytis í vasa ríkisins. Þannig hafa að meðaltali 51,6% af andvirði hvers bensínlítra farið þá leið undanfarið ár, samkvæmt upplýsingum frá FÍB.

Birgðastaða á ekki að hafa áhrif á verðlækkun

Líkt og Kjarninn hefur bent á þá er skattlagning ríkisins einmitt eitt þeirra atriða sem olíufélögin benda jafnan á, til útskýringar á því af hverju verðlækkun hráolíu erlendis leiðir ekki af sér álíka hækkun hér á landi.

Önnur ástæða sem félögin hafa einnig vísað til, felst í birgðastöðu þeirra. Þau eigi birgðir sem þau keyptu áður en viðkomandi lækkun átti sér stað og því skili hún sér ekki undir eins út í verðlagið.

Runólfur tekur fyrir þess háttar útskýringar. „Við höfum staðfestar heimildir fyrir því að olíubirgðir hér á landi séu í eigu erlendra birgja. Einu birgðirnar sem félögin sitja því uppi með frá degi til dags, eru á bensínstöðvunum.“

Olíufélögin kaupa því birgðirnar á þeim degi sem þær eru fluttar til bensínstöðva, en að sögn Runólfs er fyllt á meginstöðvar höfuðborgarsvæðisins allt að fjórum sinnum á viku.

„Vægi birgða er því nánast ekkert hvað varðar verðmyndun á eldsneytinu.“

Markaðsverð lækkar, álagning hækkar

Miðað við grafið hér að ofan er ljóst að olíufélögin sjá sér leik á borði til að hækka álagningu þegar heimsmarkaðsverðið lækkar. 

„Það má greina að tilhneiging olíufélaganna er á þennan veg. Við sáum það til dæmis nú í kringum áramótin þegar mikil dýfa varð á heimsmarkaðsverði að álagningin hélst há mjög lengi. Eins og kom fram í viðtali við forstjóra Skeljungs í janúar þá hækkuðu þeir álagninguna á sama tíma og markaðsverðið lækkaði,“ segir Runólfur.

Hærri álagning getur þó átt sér eðilegar skýringar að hans sögn.  „En álagningin í Danmörku er til dæmis aðeins helmingur af því sem hún er hér og það verður að teljast óeðlilegt.“

Jón og Gunna borga niður afslætti annarra

Runólfur segir að hér á landi tíðkist mjög ríkulegir afslættir til stærri fyrirtækja og jafnvel opinberra aðila.

„Menn virðast því hafa keyrt upp ákveðið verðmyndunarferli þar sem er nauðsynlegt að hafa háa álagningu á hinn almenna neytanda til að vega á móti viðskiptunum við stóru aðilana. Jón og Gunna eru þannig að borga langhæsta verðið og eru í raun að borga niður afslætti til fyrirtækja og hins opinbera.“

Af hverju er verðið að lækka?

Skýringar á lækkun hráolíuverðsins má meðal annars finna á hlutabréfamarkaðnum í Kína. Sérfræðingar hafa bent á að fall hlutabréfa á markaðnum hafi áhrif víða í hinu hnattræna fjármálaumhverfi. Þá benda vísitölur til þess að efnahagsvöxtur fari dvínandi og minnkandi vöruframleiðsla í landinu þykir gefa efni til ótta.

Fyrr á þessu ári töldu margir að lækkun olíuverðs væri af völdum annars stærsta olíuframleiðanda heims, Sádi-Arabíu. Undanfarin ár hefur nefnilega átt sér stað gífurleg aukning á svokölluðu bergbroti (e. fracking) innan Bandaríkjanna, eftir að stjórnvöld þar í landi settu sér markmið um sjálfstæði í orkumálum.

Skrúfuðu frá til að lækka verðið

Sádi-Arabía skrúfaði frá olíulindum sínum til að reyna að lækka verðið og þar með þrýsta þessum fjölmörgu nýju framleiðendum út af markaðnum. Og það virkaði, eins og sjá má á meðfylgjandi grafi sem mbl.is hefur frá fréttavefnum Quartz. Þannig virðist bergbrotið hafa náð hámarki seint á síðasta ári en fjöldi virkra olíuborpalla í Bandaríkjunum hefur minnkað um rúmlega 60 prósent á því rúma hálfa ári sem frá er liðið.

En nú virðist sem dýfan hafi tekið enda og að framleiðendur vestanhafs séu að taka við sér á ný. Fleiri teikn eru á lofti um áframhaldandi lækkun olíuverðs. Íran, sem talið er eiga fjórðu mestu olíulindir heimsins, býr sig nú undir aukna framleiðslu eftir að samningur náðist við Bandaríkin og fleiri ríki um að aflétta viðskiptahöftum á landinu gegn því að Íranar framleiði ekki kjarnavopn. Enda lækkaði heimsmarkaðsverð á olíu um rúm 2 prósent eftir að tilkynnt var um að samkomulag hefði náðst.

Geta aukið framleiðslu til muna

Íran getur aukið olíuframleiðslu til muna innan viku frá afléttingu haftanna, sem bíður enn samþykkis Bandaríkjaþings. Fréttastofa Bloomberg greinir þannig frá því að framleiðslan geti aukist um 500 þúsund tunnur á dag innan viku frá afléttingunni, og um eina milljón tunna á dag innan mánaðar frá sama degi. Hefur fréttastofan þessar fregnir eftir ríkisrekinni fréttaþjónustu Írans. Sjá má á grafinu að framleiðslan hefur minnkað síðustu ár í kjölfar aukinna þvinganna af hálfu Bandaríkjanna og bandalagsþjóða þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina