Sekta GM, Ford og franska bílsmiði stórt

General Motors hlaut stærstu sektina fyrir hringamyndun á Spáni.
General Motors hlaut stærstu sektina fyrir hringamyndun á Spáni.

Samkeppnisyfirvöld á Spáni (CNMC) hafa sektað 21 bílsmið og tvö ráðgjafarfyrirtæki um alls 171 milljón evra fyrir brot á samkeppnislögum.

Stærstu einstöku sektina hlaut bandaríski bílsmiðurinn General Motors, eða 22,8 milljónir evra. Ford var þar skammt á eftir með 20,2 milljóna evru sekt. Franskir bílsmiðir fengu einnig skell, Renault var sektað um 18,2 milljónir, Peugeot um 15,7 og Citroen um 14,8 milljónir evra.

Að sögn CNMC höguðu fyrirtækin sér eins og einokunarhringur sem samræmdi verð vöru sinnar með því að skiptast á viðkvæmum upplýsingum varðandi bílasölu, viðgerðar- og viðhaldskostnað og varahluti. Þar á meðal voru upplýsingar um verðívilnanir sem ætlað var að koma í veg fyrir afsláttarstríð við sölu nýrra bíla.

Stofnunin hefur aldrei sektað fyrirtæki svo stórt, en hún hóf rannsókn á umsvifum bílafyrirtækjanna innan Spánar í hitteðfyrra. Var starfsemi 124 fyrirtækja rannsökuð í þessu skyni. Í mars sl. sektaði stofnunin 45 umboð Toyota, Hyundai og Opel fyrir ólöglegt verðsamráð í Madríd og Galisíu. Þá hefur stofnunin nýhafið rannsókn á starfsemi umboðsfyrirtækja Volvo á Spáni.

Bílsmiðirnir seku hafa tveggja mánaða frest til að leggja fram mótmæli við niðurstöður rannsókna CNMC og áfrýja sektunum. Tóku sektirnar mið af veltu fyrirtækjanna og hversu alvarleg samkeppnisbrot þeirra voru að hennar mati.

Athygli vekur að Volkswagen og dótturfyrirtæki þess, þar á meðal spænski bílsmiðurinn Seat, sluppu við sektir. Ástæðan er sú að þau gengu til liðs við CNMC um að upplýsa brotin. Seat tók þátt í verðsamráðinu og liggur fyrir, að sekt þess hefði numið 39,44 milljónum evra hefði bílsmiðurinn ekki tryggt sér náðun fyrirfram með samstarfi við samkeppnisstofnunina um að fletta ofan af verðsamsærinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina