Nú er komið að Renault að hasla sér völl á fjórhjóladrifsmarkaði. Um helgina verður frumsýndur hjá BL nýr fjórhjóladrifinn Renault Kadjar. Stendur hún yfir á morgun, laugardag milli kl. 12 og 16.
Þrátt fyrir að fjórhjóladrifinn bíll frá Renault hafi verið til um árabil undir nafninu Koleos náði hann aldrei vinsældum svo neinu næmi.
Nýr Renault Kadjar er um margt líkur þeim nýju Renault bílum sem kynntir hafa verið á undanförnum misserum og fært hefur Renault vinsældir sem fleyttu þeim í þriðja sæti yfir söluhæstu bílmerkin á landinu 2014.
Sparneytnar dísilvélar
„Renault Kadjar er eingöngu búinn dísilvélum sem eru annað hvort 1,5 lítra eða 1,6 lítra. Aðalsmerki Renault undanfarið hefur einmitt verið sparneytnar dísilvélar sem menga lítið og nýta eldsneytið vel. Kadjar 2WD beinskiptur og sjálskiptur eru til með 1,5 lítral dísilvél sem notar einungis 3,8 líra á hundraðið (CO2 útblástur 99 gr/km) og Kadjar 4WD í Expression útgáfu er til með 1,6 lítra dísilvél sem notar 4,9 lítra á 100 kílómetra (CO2 útblástur 129 gr/km) en báðar þessar tölur eru uppgefnar tölur framleiðanda um eldsneytisnotkun í blönduðum akstri,“ segir í tilkynningu frá BL um frumsýningu Kadjar.
Fullkomið fjórhjóladrif með 2WD stillingu
Undirvagn og fjórhjóladrif Kadjar er hannað í samstarfi við Nissan en Nissan og Renault eru í eigu sömu framleiðslusamsteypunnar. Fjórhjóladrifið er með 2WD stillingu sem gerir ökumanni kleyft að keyra mestan hluta ársins eingöngu í framhjóladrifi og þannig hámarka nýtingu eldsneytis.
Kadjar kostar frá 3.990.000 kr.
Nýr Renault Kadjar er til í nokkrum gerðum sem gefa til kynna mismunandi búnaðarstig. Grunngerðin Kadjar Life kostar 3.990.000 kr. með LED dagljósum, stöðugleikastýringu, spólvörn, 6 öryggisloftpúðum, handfrjálsum símabúnaði (Bluetooth), loftkælingu, aðgerðahnöppum í stýri og AUX og USP tengingum á hljómtæki svo eitthvað sé nefnt.
Expression og Dynamic kosta frá 4.190.000 kr. með sjálfskiptingu og hafa aukalega Íslenskan leiðsögubúnað og 360° öryggismyndavélakerfi auk annars búnaðar. Fyrir þá sem gera miklar kröfur um búnað er BOSE útgáfan sem kostar frá 5.090.000 kr. með glerþaki, leggja í stæði hjálp, LED aðalljósum, 19“ álfelgur og fullkomin BOSE hljómtæki.
Frumsýning á Renault Kadjar verður hjá BL á morgun laugardag milli kl. 12 og 16.