Bifhjólamenn hafa haft orð á því að malbik sé óvenju hált á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er mjög slæmt fyrir hjólafólk en þetta verður hált fyrir alla vegfarendur þegar malbikið blotnar,“ segir Emil Anton Sveinsson, bifhjólamaður, við mbl.is. Vegagerðin mun hefja hálkumælingar í dag.
„Þetta versnar bara þegar líður á haustið, þegar það kólnar og svona, þá verður þetta einfaldlega hált.“ Emil segir að það sé eins og tjaran fljóti upp þegar götur séu malbikaðar. „Maður hefur séð þetta áður en aldrei í sama mæli og nú í sumar og ástandið er mjög slæmt þetta árið.“
Hann hefur haft samband við Vegagerðina út af þessu og fólk þar ætlaði að kanna ástand verstu kaflanna. „Fólk hjá Vegagerðinni vissi af þessu og ætlaði í hálkuprófanir á verstu stöðunum. Þetta var fyrir viku og ég hafði sérstaklega á orði að kaflinn frá Nesti í Fossvogi og uppundir Hamraborgina rosalega slæmur. Þessi kafli var malbikaður fyrir um það bil mánuði og ef mótorhjólafólk fer á miðjar akreinar þá erum við að setja okkur í hættu.“
Emil bendir á að þessi staður sé einnig slæmur vegna þess að hámarkshraðinn eru 80 kílómetrar. „Þetta er líka í beygju þannig að ástandið þarna er skelfilegt.“
Hann segir að það hafi verið mikil lukka fyrir mótorhjólafólk að nánast ekkert hafi rignt í sumar. „Þetta er búið að vera frábært sumar og engin rigning.“
Emil finnst undarlegt að nýtt malbik setji vegfarendur í hættu. „Í löndum þar sem gæðaeftirlit er í lagi hefði verktakinn átt að rífa malbikið upp og gera þetta upp á nýtt. Þetta á ekki að vera svona. Nýtt malbik á ekki að setja vegfarendur í hættu. Ef við erum farin að veigra okkur við því að hjóla á nýju malbiki þá er eitthvað að.“
Samkvæmt Bjarna Stefánssyni, deildarstjóra hjá Vegagerðinni, hefjast hálkumælingar í dag. „Þá erum við að meta hversu hált þetta er og þar fram eftir götunum,“ segir Bjarni við mbl.is. Aðspurður segir hann eitthvað verða gert ef einhverjir vegkaflar þykja of hálir.
„Tjaran pressast upp út undan völturunum og þá myndast tjöruhimna yfir malbikinu. Þetta hefur verið með meira móti á nokkrum stöðum, til að mynda við Smáralind og við Fossvoginn. Þessi mál eru öll í skoðun.“