Alfa Romeo með jeppa

Þennan hugmyndajeppa kynnti Alfa Romeo á bílasýningunni í Genf 2003 …
Þennan hugmyndajeppa kynnti Alfa Romeo á bílasýningunni í Genf 2003 en ætla má að hann hafi tekið breytingum á teikniborðum í millitíðinni,

Ítalski bílsmiðurinn Alfa Romeo er að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga á þessu ári og meðal nýrra áforma er hann blandi sér í keppni í þeim bílgeira sem vex einna hraðast um þessar mundir, flokki jeppa- og jepplinga.

Í þessari uppstokkun felst að Alfa Romeo komi með átta ný bílamódel á götuna fyrir árið 2018. Og nú segir æðsti maður samsteypunnar Fiat Chrysler,  Sergio Marchionne, að Alfa Romeo sé klárt með jeppa sem komi á götuna þegar á næsta ári.

Þegar er nýr Giulia kominn á götuna og áform eru um langbak og jeppling og um mitt næsta ár mun jeppinn nýi birtast.

Enn sem komið er hefur nafn á honum ekki verið látið uppi. Hann hefur þó gengið undir framleiðsluheitinu Alfa Romeo 949 hingað til. Um verður að ræða meðalstóran jeppa en í þeim stærðarflokki mætir hann samkeppni frá bílum eins og BMW X3, Mercedes-Benz GLC og Audi Q5. Og líklega á bílum eftir að fjölga í þessum flokki því hver bílsmiðurinn á fætur öðrum virðist vilja komast í kökuna sem þar bíður og ná sér í sneið af henni.

Nýi jeppinn er byggður upp af sama undirvagni og Giulia. Verður hverfilblásin og um 500 hestafla V6-vél í aflmestu útgáfunni en auk þess verða í boði útgáfur með nýjum fjögurra og sex strokka vélum sem Alfa Romeo mun vera að þróa. Stærsta dísilvélin sem boðið verður upp á verður um 350 hestöfl, en til samanburðar er 309 hesta vél í Audi SQ5.


Hér er ein hugsanleg útfærsla af jeppanum sem Alfa Romeo …
Hér er ein hugsanleg útfærsla af jeppanum sem Alfa Romeo mun koma með á markað á næsta ári.
mbl.is