Dæmi um að bílasölur segi ósatt um aldur bíla

Dæmi eru um að bílasalar segi bíla yngri en þeir …
Dæmi eru um að bílasalar segi bíla yngri en þeir eru í raun og veru. mbl.is/Styrmir Kári

Dæmi eru um að ökutæki sem seld eru á Íslandi séu tveimur árum eldri heldur en bílasölur auglýsa. Útskýrist þetta af því kerfi sem er viðhaft um nýskráningu bíla á Íslandi. Kerfið virkar þannig að bílar eru nýskráðir við söludagsetningu en ekki við framleiðsludagsetningu. Þannig gæti bíll verið fluttur inn árið 2009 en hann ekki seldur fyrr en árið 2011. Þá fyrst er hann skráður sem nýtt ökutæki. 

Kristófer Ágúst Kristófersson, deildarstjóri tæknimála ökutækja hjá Samgöngustofu, staðfestir þetta og segir að dæmi séu um að bílasölur auglýsi bíla sem selst hafa illa, af nýrri árgerð en þeir eru í raun og veru. Það sé gert til þess að fá hærri verð fyrir þá. Neytendur telji sig því oft og tíðum vera að kaupa nýjan bíl þegar staðreyndin er sú að hann er vissulega enn ónotaður en framleiddur fyrir ári eða tveimur síðan.

Mögulegt er þó að komast að raunverulegum aldri bíls með því að fletta honum upp í ökutækjaskrá. Í skránni er gefin upp svokölluð forskráningardagsetning, en bílar eru iðulega forskráðir við komu til landsins. Þannig getur hinn upplýsti neytandi athugað hvort að auglýsingar bílasala um árgerð standist skoðun með því að athuga forskráningardagsetningu.

Á vefsíðunni Bílasölur.is má til dæmis finna Izuzu D-MAX jeppa sem auglýstur er sem árgerð 2010. Hins vegar ef bílnum er flett upp í ökutækjaskrá sést að hann er forskráður árið 2008 og getur því ekki verið af nýrri árgerð en 2008. 

Samkvæmt heimildum mbl.is kemur þetta skráningarkerfi sér einnig illa fyrir bifreiðaverkstæði þar sem oft þarf að panta varahluti fyrir viðgerðir sem reynast svo ekki passa í bílinn sem laga þarf og hann skráður af rangri árgerð. Það má því reikna með því að töluverður kostnaður hljótist af fyrir neytendur vegna þessa.

mbl.is