Morgunblaðið gerði úttekt á framboði bíla á leigu, verði þeirra og þjónustu sem innifalin er í verðinu.
Í ljós kom að hæglega má leigja smábíl fyrir minna en 50 þúsund krónur á mánuði, þar sem tryggingar, bifreiðagjöld, dekkjaskipti og ýmiss konar þjónusta er innifalin. Þó er mismunandi eftir bílaleigum hversu mikil þjónusta og viðhald er innifalið. Verðið hækkar þó snarlega sé óskað eftir stærri bílum, svo sem jeppa eða sendibíl.
Margar bílaleigur bjóða einnig upp á svokallaða vetrarleigu, þar sem leigutímabilið miðast við september/október og fram í maí/júní. Slík leiga tryggir almennt aðeins lægra verð en langtímaleiga, sem getur verið á bilinu 12-36 mánuðir.
Þetta kemur í ljós eftir úttekt Morgunblaðsins á svokallaðri langtímaleigu á bílum. Bílaleigurnar Hertz, Avis, Sixt, Thrifty Cars og Ratio veittu leyfi til að birta upplýsingar um verð og þjónustu.
Í öllum tilvikum eru kaskótrygging, bifreiðagjöld og regluleg dekkjaskipti og smurþjónusta auk hefðbundins viðhalds innifalin, þó að mismikið viðhald sé innifalið hjá fyrirtækjunum. Öll bjóða upp á bæði skammtíma- og langtímaleigu, þó svo að Ratio leggi höfuðáherslu á langtímaleigu til fyrirtækja.