Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem unnin var fyrir bandaríska bílrisann Ford snúa langfæstir kaupendur rafbíla til baka til hefðbundinna bíla með brunavél er þeir endurnýja farartæki sín.
Ekki minna en 92% neytenda sem brúka rafbíla munu kaupa annan rafbíl þegar þeir telja tímabært að endurnýja. Og séu eigendur tengiltvinnbíla taldir með þá hækkar hlutfallið í 94% sem munu halda sig við mengunarfrían bíl.
Könnunin náði til 10.000 eigenda rafbíla og meðal þess sem þeir hafa hrifist af í fari rafbíla er hin mikla og tafarlausa snerpa sem þeir búa yfir. Sömuleiðis hafa þeir fallið fyrir hinni hreinu tækni sem bílarnir byggjast á. Í ljós kom að drjúgur meirihluti fjölskyldna á annan bíl en rafbílinn og er þá í flestum tilvikum um bíl með brunavél að ræða. Var hann venjulega notaður til lengri ferðalaga.
Það sem vantar inn í þessa mynd, er að sala á hreinum rafbílum og tengiltvinnbílum hefur skroppið saman í Bandaríkjunum í ár. Meginskýringin á því er verðlækkun á bensíni en verð á því hefur haldist stöðugt lægra í ár en í fyrra. Það hefur valdið mikilli aukningu á sölu jepplinga, jeppa og pallbíla sem allir eru sparneytnari í seinni tíð vegna framfara í véltækni. Greinendur segjast ekki sjá fyrir sér að skerfur rafbíla á bílamarkaði aukist í náinni framtíð.
agas@mbl.is