Benz verði ekki hestvagnaframleiðandi

Dr. Ralf G. Herrtwich.
Dr. Ralf G. Herrtwich. mbl.is/Styrmir Kári

Dr. Ralf Herrtwich var einn aðalræðumanna á haustráðstefnu Advania á föstudaginn. Hann stýrir þróun sjálfkeyrandi bíla hjá Mercedes-Benz, þróun sem er mun lengra á veg komin en fólk gerir sér grein fyrir.

Sjálfkeyrandi bílar eiga þó langt í land með að verða hversdagsleg sjón og enn lengra þangað til sjálfkeyrandi bílar verða í meirihluta á götum úti - eða ryðji hefðbundnum bílum algjörlega úr vegi.

„Sjálfkeyrandi bílar eru ekki raunveruleikinn, en við ætlum þangað. Hvers vegna?“ sagði Herrtwich í fyrirlestri sínum. Jú, bílar væru yfirleitt seldir undir því yfirskyni að þeir væru þægilegir, gaman að keyra þá, vegirnir væru auðir og blár himinn. Blæjan jafnvel niðri. Frelsi til að ferðast, hreyfanleiki. Þetta væri það verðmæti sem felst í bílnum.

Frétt mbl.is: Mestu breytingar frá upphafi bílsins

Raunveruleikinn væri hins vegar oft annar. „Í mörgum tilvikum, kannski ekki á Íslandi, er minna ekið á góðum fjallvegum eða við ströndina,“ sagði hann og dró fram mynd af illvígri umferðarteppu á hraðbraut í Los Angeles. Þung, hæg umferð. Martröð allra ökumanna og eitthvað sem allir væru ánægðir að losna við.

Einkabíllinn á sér framtíð - bara öðruvísi

Hann sagði marga spyrja hvort einkabíllinn ætti sér framtíð. „Ekki spurning,“ sagði Herrtwich. „Sú framtíð gæti hins vegar verið aðeins öðruvísi en fortíðin. Verðmætið sem mun felast í einkabílnum verður ekki bara að geta ferðast frjálst heldur að geta gert það í einrúmi. Margir telja að almenningssamgöngur verði fljótlegasta leiðin til að komast milli staða.“ Hann sagði að einkabílar muni þróast í þá átt að verða „þriðja rýmið“ á milli heimilis og skrifstofu.

Þar geti menn unnið í friði, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að aka bílnum. Gefa inn, stýra, komast örfáa metra í umferðarteppu, bremsa, og endurtaka þetta mörgum sinnum. Búnaður sem leysir úr þessu er þegar til staðar í sumum bílum Mercedes-Benz, búnaður sem stýrir bílnum algjörlega sjálfvirkt gegnum umferðarteppu.

Hann sagði hraðbrautaakstur eðli málsins samkvæmt vera mun auðveldari fyrir sjálfkeyrandi bíla en akstur í borgarumhverfi. Þar væru fótgangi og hjólreiðafólk sem felur í sér áskoranir fyrir sjálfkeyrandi bíla. Borgarakstur væri þó eitthvað sem Mercedes-Benz ætlaði bílunum sínum.

Þurfa að læra að gera hlutina rétt

Herrtwich sagði í erindi sínu að fram að þessu hafi áhersla bílaframleiðenda verið að læra hvaða mistök ökumenn gera, við hvaða aðstæður og hvernig mætti búa bíla þannir að þeir grípi inn í þegar þessi mistök eru yfirvofandi. Hann sagði að ólíkt því sem margir héldu fram þá væri fólk ágætis ökumenn upp til hópa.

Frétt mbl.is: „Hálfsjálfkeyrandi“ Benz á Íslandi

Áskorunin sem hönnuðir sjálfkeyrandi bíla stæðu því frammi fyrir núna væri ekki bara að koma í veg fyrir mistök ökumanna, heldur miklu frekar að láta bíla herma eftir því sem ökumenn gera vel. Verst væri ef „hálfsjálfkeyrandi“ bílar væru þess eðlis að þeir ætluðu ökumanninum að grípa inn í við erfiðar aðstæður, því þá væri ökumaðurinn mjög líklega annars hugar og allt of seinn að bregðast við.

Gamlar konur áskorun fyrir sjálfkeyrandi bíla

Hann sagði auk þess að samskipti gangandi ökumanna, eða bíla, og annarra vegfarenda ættu eftir að breytast. „Í einni prufukeyrslunni stoppuðum við bílinn við gangbraut til að hleypa gamalli konu yfir. Hún reyndi hins vegar að gefa okkur merki með því að veifa að við ættum fyrst að fara yfir,“ sagði Herrtwich.

„Bíllinn var auðvitað ekki forritaður til að skilja það og þegar við sáum að hún var að verða pirruð á okkur gripum við inn í og keyrðum yfir gangbrautina,“ sagði Herrtwich og uppskar hlátur hjá ráðstefnugestum. „Bíllinn var ekki forritaður til að skilja þetta, en það er ekkert sem segir að það væri ekki hægt. Þetta gefur manni hugmynd um þær áskoranir sem munu mæta sjálfkeyrandi bílum.“

Herrtwich hélt þar að auki erindi á fundi hjá Öskju, umboðsaðila Mercedes-Benz á Íslandi sem haldinn var samhliða ráðstefnunni. Það erindi var á svipuðum nótum og erindið sem hann hélt fyrr um daginn.

Þar sýndi hann meðal annars glæru með merkjum fjölda fyrirtækja. Hann spurði viðstadda hvort þeir könnuðust við þessi vörumerki. Enginn rétti upp hönd. Það kom honum ekki á óvart, því þetta voru allt merki fyrirtækja sem voru leiðandi í framleiðslu hestvagna undir lok 19. aldar. Þeim var öllum rutt úr vegi af Mercedes-Benz. Herrtwich sagði það ekki berum orðum, en það mátti lesa á milli línanna að menn sem lifa og hrærast í bílaheiminum líti á sjálfkeyrandi bíla sem svipaða byltingu og þegar sprengihreyfillinn velti hestvagninum úr sessi sem ríkjandi ferðamáta fólks. 

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, sagði á fundi Öskju að á næstu 10 árum megum við búast við meiri breytingum á bílnum og bílaiðnaðnum en orðið hafa á síðustu 100 árum.

Samkeppnin þegar orðin hörð

Ralf Herrtwich sagði í samtali við mbl.is að mikil samkeppni yrði í þróun sjálfkeyrandi bíla á næstunni. „Samkeppnin er ekki bara á milli hefðbundinna bílaframleiðenda, þar sem hún er þegar mjög mjög mikil, heldur eru ný fyrirtæki á markaðnum eins og Tesla, Google og líklega frá Apple. Við hjá Benz þurfum að tryggja að við séum búin undir þá samkeppni,“ sagði Herrtwich.

Hann sagði þó að tæknin sé aðeins ein hliðin á peningnum. Regluverkið þurfi að gera ráð fyrir þeim möguleika að bílar aki um götur án ökumanna. Sum fylki í Bandaríkjunum hafi þegar greitt götur slíkra bíla, en reglurnar séu mjög mismunandi milli ríkja. Þannig þurfi til að mynda að skipta um númeraplötur þegar sjálfkeyrandi bíll ekur frá Kaliforníu inn í Nevada.

„Í Þýskalandi og í Evrópu allri vinna bílaframleiðendur saman til að þrýsta á löggjafann, líka í Bandaríkjunum. Google eru mikið að að þrýsta á í Bandaríkjunum. Þetta þarf allt að koma heim og saman til þess að lagalegu úrlausnarefnin verði leyst þannig að lögin hamli ekki tækniþróuninni.“

Breytt borgarásýnd

Sjálfkeyrandi bílar gætu ekki aðeins breytt því hvernig við ferðumst, heldur einnig hvernig borgir þróast. Í fyrirlestri sínum talaði Herrtwich um þróun sjálfkeyrandi bíla sem væru í einkaeigu, þar sem ökumaðurinn ætti bílinn og gæti enn keyrt sjálfur ef hann vildi og sjálfkeyrandi vöruflutningabíla, en síðast en ekki síst sjálfkeyrandi bíla sem ganga, eða keyra, á milli manna.

Mercedes-Benz býður nú þegar upp á Car2Go, þjónustu þar sem fólk leigir litla bíla og greiðir fyrir hverja mínútu. Herrtwich sagði að þessir bílar gætu í fyrirsjáanlegri framtíð sjálfir keyrt til notandans, ekið honum frá A til B, og síðan til næsta notanda. „Eitt vandamál varðandi komu sjálfkeyrandi bíla er að þeir munu koma í áföngum. Það verður ekki hægt að segja að á ákveðnum tímapunkti endurbyggjum við borgir kringum þá. Ég á í hreinskilni erfitt með að sjá fyrir mér hvernig þessi umbreyting verður,“ sagði Herrtwich.

“Mig grunar að á sínum tíma þegar svæði fyrir fótgangandi voru hönnuð þurfti að laga umferðargötur að þeim. Við gætum séð eitthvað svipað með þessari nýju bylgju af sjálfstýringu. Sjálfkeyrandi bílar munu að ég held eiga auðveldara með að laga sig að blandaði notkun vega heldur en ökumenn. Eins undarlegt og það kann að hljóma þá gætum við séð meiri borgarbrag (e. urban life) í borgum með sjálfkeyrandi bíla,“ sagði Herrtwich.

Uppselt var á ráðstefnuna.
Uppselt var á ráðstefnuna. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
Ráðstefnugestir fylgdust með af athygli.
Ráðstefnugestir fylgdust með af athygli. Styrmir Kári
F 015 tilraunabíllinn frá Mercedes er hannaður út frá sjálfkeyrandi …
F 015 tilraunabíllinn frá Mercedes er hannaður út frá sjálfkeyrandi eiginleikum og þess vegna geta farþegar snúið hver að öðrum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina