Framkvæmdastjóri Volkswagen, Martin Winterkorn, hefur sagt upp störfum vegna uppljóstrana um að bílaframleiðandinn hafi svindlað á útblástursprófum. Í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér segist hann vera í „áfalli yfir atburðum síðustu daga“ og með afsögninni vilji hann greiða veg fyrirtækisins.
Volkswagen hefur viðurkennt að hafa svindlað á útblástursprófum á dísilbílum fyrirtækisins í Bandaríkjunum með sérstökum hugbúnaði til þess að sýna minna útblástur en bílarnir gefa í raun frá sér við akstur. Fyrirtækið hefur sagt að málið verði ellefu milljónir bifreiða um allan heim og býr sig undir að greiða himinháa sekt vegna svikanna.
„Ég er að greiða götuna fyrir nýtt upphaf með afsögn minni,“ sagði Winterkorn meðal annars í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag.
Winterkorn sagðist jafnframt vera sem steinrunninn yfir því hversu umfangsmikil svikin hafi verið en hann sé viss um að Volkswagen nái að sigla upp úr þeim öldudal sem fyrirtækið er komið í. Hlutabréfaverð í fyrirtækinu hefur hrunið undanfarna daga eftir að hneykslið varð opinbert.
„Ferli skýringa og gegnsæis verður að halda áfram. Það er eina leiðin til að vinna traustið aftur,“ segir ennfremur í yfirlýsingu Winterkorn.