Eggin ekki öll í sömu körfunni

Þróunin er öflug í dag með tilkomu nýrra battería.
Þróunin er öflug í dag með tilkomu nýrra battería. mbl.is/Styrmir Kári

Bílabúð Benna fagnar fjörutíu ára afmæli sínu um þessar mundir en fyrirtækið er eitt fárra rótgróinna sinnar tegundar á landinu. Nokkrar sviptingar hafa orðið í bílasölu síðustu ár, en eftir mikla lægð í kjölfar efnahagshrunsins er hún að rétta úr kútnum á ný, að sögn Benedikts Eyjólfssonar, forstjóra fyrirtækisins.

Í gegnum tíðina hafa áherslur fyrirtækisins verið margar og athyglin jafnt beinst að sölu nýrra og notaðra bíla, varahluta og dekkja, auk annarra aukahluta. Í dag er fyrirtækið umboðsaðili fjögurra bílategunda og fimm dekkjaframleiðenda. Bílabúð Benna rekur auk þess viðurkennda viðgerðarþjónustu fyrir þær bílategundir sem fyrirtækið hefur umboð fyrir, dekkjaverkstæði, dekkjaheildsölu og verslun sem selur aukahluti í allar gerðir bíla.

Ný tækifæri í nýjum tegundum

Bíltegundirnar fjórar sem Bílabúð Benna hefur umboð fyrir eru Porsche, Opel, Chevrolet og Ssang Yong. Opel er nýjast merkjanna hjá Bílabúð Benna, en fyrirtækið tók við sölu á Opel bifreiðum síðasta haust.

„Við erum að læra á bílana og merkin. Í fyrsta sinn í sögu Bílabúðar Benna erum við til dæmis að selja atvinnubíla. Þeir lofa mjög góðu, ný lína að mestu leyti og frábær verð. Við erum með þrjár gerðir af þeim sem koma í mismunandi útgáfum, segir Benedikt og bætir við að með batnandi efnahag sé orðin vöntun á atvinnubílum á götunum.

Bílabúð Benna hefur einnig í sölu fjölmarga fólksbíla frá Opel, þar á meðal nýja útgáfu af Opel Corsa sem kynnt var í vor, jepplinginn Mokka og lúxusbifreiðina Insignia. Opel Corsa var kosinn „bestu kaupin í smábíl“ í Evrópu.

„Þeir voru að kynna nýja útgáfu af Opel Astra á bílasýningunni í Frankfurt í þessum mánuði, mjög flottur bíll. Þeir hafa létt bílinn gríðarlega, eða um allt að 200 kg og einnig kemur hann með nýjum Euro 6 vélum með minni eyðslu og minni mengun, sem lofar góðu,“ segir hann og bætir við að sölu Opel-bifreiða hafi lítið verið sinnt síðustu ár. Það sem af er þessu ári hafa nú selst rúmlega 400 Opel bílar. Ný Opel Astra fer í sölu hjá Bílabúð Benna snemma á næsta ári.

Chevrolet áfram í sölu

Bæði Opel og Chevrolet heyra undir bandaríska bílaframleiðandann General Motors, en ætlun fyrirtækisins er að draga saman seglin á evrópumarkaði hvað Cheverolet merkið varðar. Að sögn Benedikts munu Chevrolet bifreiðar þó haldast í sölu hjá Bílabúð Benna fram á næsta ár.

„Við verðum áfram með Chevrolet en höfum þó minnkað línuna og erum bara að selja Spark, Captiva og Cruize. Við munum halda því eitthvað áfram, segir hann, enda hafi þeir notið vinsælda síðustu ár,“ segir hann.

Ssang Yong bílarnir hafa einnig gert gott mót frá því Bílabúðin hóf að flytja þá inn árið 1996. Benedikt segir að mikil gæði séu í smíðum Ssang Yong-bifreiðanna, en væntanlegur er jepplingur frá fyrirtækinu sem ber nafnið Tivoli.

Bensínvélin á enn mikið inni

„Porsche-jepparnir hafa líka komið sterkir inn, sérstaklega nýji Macan jeppinn,“ segir Benedikt, en flestir blaðamenn eru sammála um að hann hafi sett ný viðmið í sýnum stærðarflokki enda gerir Porsche gríðarlegar kröfur til aksturseiginleika sinna bíla og á það við bæði um sportbílana eins og jeppana.

Athygli vekur að Bílabúð Benna hefur til sölu rafmangsútgáfu af tveimur Porsche-bílanna, Cayenne jeppanum og Panamera-lúxusbifreiðinni. Báðir þessir bílar er hlaðanlegir blendingsbílar eða svokallaðair „plug-in Hybrid“ með drægni sem dugar almennt til daglegra nota en jafnframt með frelsi til að ferðast hvert sem er. Aðspurður hvort þróunin sé hröð hvað varðar breytingar á aflgjöfum í bifreiðum, segir Benedikt að svo sé. Nútímabensínvélar veiti rafmagnsmótorunum þó enn samkeppni.

„Þróunin er öflug í dag, með tilkomu nýrra battería. Ég held að næstu þrjú til fimm árin ráði „plug-in Hyrbrid“-bílar ríkjum, eða þar til menn ná batteríinu léttara og betra. Þá mun rafmagnsbíllinn örugglega taka við,“ segir hann, en bætir við að þótt dísilvélar hafi komist að ákveðnum vegg, eigi bensínvélin enn nokkuð inni. Bílaframleiðendur keppist nú við að framleiða sparneytnustu bensínvélina.

Flutningar í ný húsakynni

Framundan hjá Bílabúð Benna eru flutningar, en nú eru í byggingu nýjar höfuðstöðvar þess á Krókhálsi 9 þar sem starfsemin mun sameinast á einum stað. Nú er hún í fimm mismunandi húsum í Höfðahverfi.

Fyrirtækið lifði af nokkrar hremmingar á árunum eftir efnahagshrunið 2008, en sala nýrra bíla dróst þá saman um 92%. Að sögn Benedikts eru nokkrar ástæður fyrir því að fyrirtækið komst í gegn um hremmingarnar og stendur vel í dag.

„Við vorum með fleiri stoðir en mörg önnur fyrirtæki og vorum ekki skuldsett. Við erum í fleiru en bara því að selja bíla og höfum ekki öll eggin í sömu körfunni,“ segir Benedikt Eyjólfsson, forstjóri Bílabúðar Benna. jbe@mbl.is

Bílabúð Benna hefur til sölu rafmagnsútgáfu af tveimur Porsche-bílanna, Cayenne-jeppanum …
Bílabúð Benna hefur til sölu rafmagnsútgáfu af tveimur Porsche-bílanna, Cayenne-jeppanum og Panamera-lúxusbifreiðinni. mbl.is/Styrmir Kári
Opel Mokka, Insignia, Insignia Sports Tourer taka sig vel út.
Opel Mokka, Insignia, Insignia Sports Tourer taka sig vel út.
Bílabúð Benna hefur til sölu rafmagnsútgáfu af tveimur Porsche-bílanna, Cayenne-jeppanum …
Bílabúð Benna hefur til sölu rafmagnsútgáfu af tveimur Porsche-bílanna, Cayenne-jeppanum og Panamera-lúxusbifreiðinni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: