Bílaframleiðandinn Volkswagen mun innkalla 120 þúsund díselbíla sem seldir voru í Suður-Kóreu. Þetta er hluti af aðgerðum framleiðandans í kjölfar þess að í ljós kom að hluti bíla fyrirtækisins er búinn hugbúnaði sem gerir fyrirtækinu kleift að svindla á útblástursprófi.
Umhverfisráðuneyti Suður-Kóreu hefur borist bréf frá Volkswagen þar sem greint er frá innkölluninni. 11 milljónir bíla verða innkallaðir á heimsvísu vegna svindlsins. Ráðuneytið ætlar einnig að láta framkvæma útblástursprófanir á bílum VW sem seldir hafa verið á Kóreumarkaði, þ.e. á Golf, Audi A3, Jetta og Beetle.
Hugbúnaðurinn gat skynjað hvenær verið var að gera útblástursmælingu og breytt virkni vélarinnar á meðan til að minnka gildi nituroxíðs í útblæstri. Á götum úti reyndust bílarnir, sem stóðust prófanir eftirlitsaðila inni á rannsóknarstofum, dæla út skaðlegum efnum í útblæstri í allt að 40 sinnum meira magni en leyfilegt er.