Negld vetrardekk spjara sig best í vetrarfæri Norðurslóða og það með nokkrum yfirburðum yfir þau ónegldu. Eru það niðurstöður könnunar Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) á gæðum vetrarhjólbarða.
„Hemlunarvegalengd þeirra á ís er alltaf umtalsvert styttri en hinna ónegldu. Besta óneglda vetrardekkið á ís er Michelin. Það nær samt ekki að stöðvast á 50 km hraða á klst fyrr en eftir 55,6 metra. Þá tapa þau negldu hemlunareiginleikum sínum á ís hægar eftir því sem þau slitna meir, heldur en ónegldu dekkin gera,“ segir á vefsetri FÍB um könnunina.
Könnunin náði til vetrarhjólbarða sem sérstaklega eru gerðir til aksturs í vetrarríki norðlægra slóða. Þótt negldu dekkin séu ennþá með besta veggripið á ís skipta naglarnir minna máli í akstri í snjó. Þar bæta þeir hemlunargetuna lítt og reyndar hemla sum ónegldu dekkin betur í snjó en þau negldu.
Neglda Goodyear dekkið reyndist þó hemla best í snjónum. Þegar hemlað var á 80 km hraða stöðvaðist bíllinn eftir 51,8 metra. Hið óneglda Pirelli dekk stöðvaðist við sömu aðstæður eftir 52,2 metra. En almennt eru ónegldu dekkin þægilegri í akstri en þeu negldu. Þau eru lágværari á auðum vegi og með þau er fólk ekki jafn bundið af því að setja ónegldu vetrardekkin undir bílana eða taka þau undan þeim við tiltekna daga í dagatalinu haust og vor.