Öflugasti kádiljákurinn til Evrópu

CTS-V er öflugasti Cadillac sögunnar með sín 649 hestöfl.
CTS-V er öflugasti Cadillac sögunnar með sín 649 hestöfl.

Cadillac er að hleypa CTS-V bílnum af stokkum í Evrópu en þar er um að ræða sérlega aflmikinn fák sem ógnað gæti veldi bíla á borð við BMW M5, Audi RS6 og AMG E-Klasse frá Mercedes-Benz.
 
Audi hefur aukið kraftinn á sportlegustu útgáfum RS-bílanna í 605 hestöfl en það er þá talsvert undir afli Cadillac CTS-V bílsins fyrir Evrópumarkað.

Undir vélarhlíf hans er að finna hvorki meira né minna en 649 hestafla 6,2 lítra V8-vél sem skilar 855 Newtonmetra togi þegar best lætur. Er hrár kraftur hans því umfalsvert meiri ien fyrrnefndra þýskra eðalbíla.  Með því kemst hann á 100 km/klst ferð úr kyrrstöðu á 3,7 sekúndum - og það með aðeins tveggja hjóla drifi. Er það í afturöxli en Bandaríkjamenn halda fast í þá gömlu hefð að beina vélarafli bíla sinna til afturhjólanna.

Cadillac CTS-V í Evrópuútgáfunni kemur á götuna í byrjun næsta árs. Verður bíllinn sá aflmesti í 112 ára sögu bandaríska bílsmiðsins.

Cadillac CTS-V gæti hrellt þýska bílsmiði.
Cadillac CTS-V gæti hrellt þýska bílsmiði.
mbl.is