„Það felast mörg tækifæri í því að Arctic Trucks er upprunnið á Íslandi og er íslenskt fyrirtæki. Ísland er sífellt að verða sýnilegra umheiminum og Ísland þykir svalt,“ segir Patrik von Sydow, nýráðinn forstjóri Arctic Trucks.
Fyrir skömmu var tilkynnt um aukningu hlutafjár Arctic Trucks um 470 milljónir króna sem nota á til frekari uppbyggingar erlendis. Samhliða hlutafjáraukningunni voru tveir erlendir stjórnendur fengnir inn í fyrirtækið, auk Patriks er Clive Scrivener tekinn við stjórnarformennsku í félaginu.
Patrik sem er sænskur hefur viðamikla reynslu af bíla- og bátaiðnaðinum í Bretlandi, Svíþjóð, Danmörku og Tyrklandi. „Ég hef verið svo lánsamur að fara í gegnum umbreytingarferli með nokkrum farsælum en ólíkum fyrirtækjum sem öll áttu það sameiginlegt að vera með sterkt vörumerki og spennandi vörur,“ segir Patrik í samtali í Morgunblaðinu í dag, en hann hefur meðal annars starfað hjá General Motors, Saab, Sealine, Danish Yachts og Numarine Performance.