Mikið hefur á gengið að undanförnu vegna útblásturshneykslis sem við Volkswagen er kennt og er því kannski að bera í bakkafullan lækinn að bæta við fréttum um verulegt vanmat bílaframleiðenda á eldsneytisnotkun smíðisgripa sinna.
Franska bílaritið Auto Plus afhjúpar slíkt í nýjasta hefti sínu, sem út kom sl. föstudag.
„Hvaða bílsmiðir svindla mest . . . og hverjir eru heiðarlegastir?“ spyr blaðið á forsíðu en síðan er gerð grein fyrir mælingum á raunverulegri eyðslu 1.114 bílamódela á átta síðum inni í því. Meginniðurstaðan er sú, að bílarnir eyða í raun og sannleik 37,2% meira eldsneyti en framleiðendur þeirra gefa upp. Segir blaðið að með öðrum orðum megi bæta um tveimur lítrum við uppgefna eyðslu á hundraðið.
Volkswagen rataði í raunir miklar vegna tölvuforrita sem svindluðu á formlegum skoðunarmælingum bandarískra samgönguyfirvalda. Með því móti var hægt að láta vélarnar losa 40 sinnum meiri mengun en leyfilegt var. Hneykslið dró fram í dagsljósið þá staðreynd, að til útgáfu vottorða fyrir nýja bíla eru þeir prófaðir við stýrðar aðstæður í tilraunastofum; aðstæður sem eru allt öðruvísi en í raunveruleika veganna.
Auto Plus komst að því við mælingar sínar, að dísilbílar frá Volkswagen og BMW eyddu 55-65% meira eldsneyti en upp var gefið. Þeir voru meðal þeirra sökóttustu – ásamt frönskum framleiðendum, en þó mun nær réttri upplýsingagjöf um neyslu bensínbíla.
Mismunur á uppgefinni eyðslu og mældri hjá sumum dísilvélum, sem sagðar eru uppfylla nýjustu mengunarkröfur, var allt að 74,3%.
Dísilvélar eru algengar í Frakklandi og eftir að útblásturshneyksli VW braust út hlupu frönsku bílsmiðirnir Renault, Peugeot og Citroën til og sögðu enga ástæðu til að ætla að blekkingabúnað væri að finna í þeirra vélum. Þeir eru þó ekki alsaklausir af villandi upplýsingagjöf því Auto Plus komst að því að þeirra nýjustu dísilvélar – sem uppfylla Euro-6 losunarreglur, – neyttu 50-65% meira eldsneytis en staðhæft var í tæknilýsingum bílanna. Tímaritið gefur frönsku bílsmiðunum á baukinn og spyr sig af þessu tilefni hvort verið geti að vélbúnaður, sem svolgrar í sig eldsneyti í raunveruleikanum, hafi verið aftengdur í vottunarprófunum. Blaðið segir sömu spurninga eiga við um Volkswagen og BMW hvað Euro-6 vélarnar varðar.
Tímaritið finnur að evrópsku regluverki sem vottar bíla með því að prófa þá við aðstæður fjarri raunverulegum hömlum veganna. Mælingarnar fara í raun fram í tilraunastofu. Peugeot og Citroën hafa brugðist við niðurstöðum Auto Plus og segjast ætla að fela óháðum aðilum að mæla og staðfesta raunverulega eldsneytishagkvæmni dísilbíla sinna og birta þær í framhaldi af því.
Hverjum skal svo treysta í þessum efnum, þegar eyðslutölur bíla eru annars vegar? Auto Plus svarar spurningu sinni sjálft og segir er það dregur saman niðurstöður mælinga sinna: Japanskir bílsmiðir . . . eru þeir sem minnst svindla. Spyr tímaritið svo hvort heiðarleikinn sé japönsk dyggð. Af 175 vélum sem mest eyddu umfram uppgefnar tölur voru aðeins sjö japanskar.
Tvinnbílar komu fremur illa út úr mælingunum, sýnu verst Opel Ampera sem reyndist eyða 275% meira en uppgefið var. Í öðru sæti varð Mitsubishi Outlander PHEV (204 hestafla) með 252,6% meiri eyðslu en framleiðandi tilgreinir og í þriðja sæti varð Volkswagen Golf GTE með 140% umfram uppgefið. Minnst muni á vottorðs- og raunveruleikatölum hjá Toyota Prius (136 hestafla) eða 28,2%.
agas@mbl.is