Þrátt fyrir vandræði sem þýski bílsmiðurinn Volkswagen (VW) hefur ratað í á heimsvísu vegna búnaðar er falsaði mælingar á mengun hefur það ekki bitnað á sölu VW-bíla hér á landi samkvæmt athugun bílablaðs Morgunblaðsins.
Þvert á móti jókst sala Heklu á VW-bílum um 10,3% í nýliðnum októbermánuði miðað við sama mánuð fyrir ári. Í október í fyrra jókst salan um 6,64% svo söluaukningin í ár er hlutfallslega enn meiri en þá.
„Volkswagen, Hekla og Íslendingar hafa um áratugaskeið átt í farsælu og árangursríku samstarfi og neytendur kunna að meta þá hreinskilni og uppbyggingarvinnu sem átt hefur sér stað hjá VW í Þýskalandi og Hekla hefur komið á framfæri hér á landi.
Sala á VW-bílum hjá Heklu jókst í október 2015 miðað við október 2014. Fyrir það erum við þakklát og allt starfsfólk Heklu mun áfram sem hingað til leggja sig fram um að þjónusta núverandi eigendur VW-bíla og taka vel á móti framtíðareigendum VW-bíla,“ segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri og einn aðaleigandi Heklu, við bílablað Morgunblaðsins af þessu tilefni.
Innflutningur og sala á flestum tegundum bifreiða á Íslandi jókst í síðasta mánuði miðað við október árið á undan. Stefnir líðandi ár í að vera gott meðalár hvað varðar nýskráningar fólksbíla, samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu.
Sala nýrra bíla hefur verið góð en í októbermánuði varð 46,6% aukning í nýskráningum fólksbíla samanborið við október 2014. Alls voru nýskráðir 808 nýir fólksbílar í október.
Þá er um að ræða 42,2% aukningu í nýskráningum frá 1. janúar til og með 31. október miðað við sama tímabil á fyrra ári. Samtals hafa verið nýskráðir 12.399 fólksbílar það sem af er ári.
Að sögn Bílgreinasambandsins fer endurnýjun á íslenska bílaflotanum að stórum hluta í gegnum bílaleigur. Reikna megi með, að þegar árið verður gert upp, verði allt að helmingur nýskráðra fólksbíla bílaleigubílar. Þeir skili sér svo að stórum hluta út á almennan markað eftir um það bil 15 mánuði.
agas@mbl.is