Vilja banna dísilbíla í London

Útsýni er takmarkað London þessa dagana vegna þoku og mengunar.
Útsýni er takmarkað London þessa dagana vegna þoku og mengunar. mbl.is/afp

Komið hafa fram kröf­ur um að dísil­bíl­ar verði gerðir út­læg­ir úr London í fram­haldi af út­blást­urs­hneyksl­inu sem kennt er við Volkswagen.

Notaði bílsmiður­inn þýski ólög­leg­an búnað til að falsa meng­un­ar­mæl­ing­ar en bíl­ar hans losuðu mun meiri meng­un en upp­gefið var og leyfi­legt er.

Full­trú­ar Frjáls­lynda demó­krata­flokks­ins (Li­bDem) í borg­ar­stjórn London hafa lagt til að dísil­bíl­ar verði bannaðir í borg­inni eða sæti ströng­um tak­mörk­un­um, allt í þeim til­gangi að af­stýra frek­ari loft­meng­un í bresku stór­borg­inni.

Einn helsti forsprakki Li­bDem, Stephen Knigt, seg­ir ár­ang­urs­rík­ustu ráðstöf­un­ina gegn meng­un vera að banna bíla. Talsmaður Bor­is John­son borg­ar­stjóra seg­ir að slík­ar aðgerðir myndu hafa al­var­leg­ar efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar í för með sér.

Um­hverf­is­nefnd borg­ar­stjórn­ar­inn­ar seg­ir að dísil­bíl­ar valdi um 40% loft­meng­un­ar í borg­inni og bresk heil­brigðis­yf­ir­völd áætla, að um 3.000 manns bíði bana ár­lega af henn­ar or­sök­um. Árið 2020 koma til fram­kvæmda í borg­inni sér­stök lág­los­un­ar­belti (ULEZ) með tak­mörk­un á um­ferð í London. Á þeim verður aðeins hrein­ustu bíl­um leyft að aka end­ur­gjalds­laust. Fyr­ir aðra fólks­bíla, sendi­bíla og mótor­hjól þarf að greiða 12,5 pund á dag og fyr­ir vöru- og flutn­inga­bíla 100 pund.

Frjáls­lynd­ir demó­krat­ar segj­ast ótt­ast óáreiðan­leika próf­ana á út­blæstri bíla því eins og dæm­in sönnuðu gætu jafn­vel bíl­ar sem haldið væri fram að væru „hrein­ir“ verið meng­andi. Væri Volkswagenhneykslið kraft­birt­ing þeirr­ar nauðsynj­ar að inn á ULEZ-svæðið færu árið 2020 aðeins meng­un­ar­frí­ir bíl­ar eða bíl­ar með afar litla los­un gróður­húsalofts. „Ein­fald­asta svarið er að segja að við vilj­um enga dísil­bíla þar,“ seg­ir Knigt.

Sér­fræðing­ar segja að vanda­mál­in í and­rúms­lofti Lund­úna séu ekki bund­in við VW-hneykslið. „Vand­inn er fólg­inn í því sem kem­ur aft­an úr bíl­um í akstri. Í raun­heim­um er það ekki bundið við bíla frá VW. Það vit­um við öll, að allra nýj­ustu bíl­ar losa kring­um sex til sjö sinn­um meira af nit­urdíoxíði... því verðum við að bíða og vona að bíl­arn­ir verði skárri eft­ir því sem þeir eru end­ur­nýjaðir,“ seg­ir Gary Fuller, pró­fess­or við há­skól­ann King's Col­l­e­ge í London.

agas@mbl.is

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Bílar »