Komið hafa fram kröfur um að dísilbílar verði gerðir útlægir úr London í framhaldi af útblásturshneykslinu sem kennt er við Volkswagen.
Notaði bílsmiðurinn þýski ólöglegan búnað til að falsa mengunarmælingar en bílar hans losuðu mun meiri mengun en uppgefið var og leyfilegt er.
Fulltrúar Frjálslynda demókrataflokksins (LibDem) í borgarstjórn London hafa lagt til að dísilbílar verði bannaðir í borginni eða sæti ströngum takmörkunum, allt í þeim tilgangi að afstýra frekari loftmengun í bresku stórborginni.
Einn helsti forsprakki LibDem, Stephen Knigt, segir árangursríkustu ráðstöfunina gegn mengun vera að banna bíla. Talsmaður Boris Johnson borgarstjóra segir að slíkar aðgerðir myndu hafa alvarlegar efnahagslegar afleiðingar í för með sér.
Umhverfisnefnd borgarstjórnarinnar segir að dísilbílar valdi um 40% loftmengunar í borginni og bresk heilbrigðisyfirvöld áætla, að um 3.000 manns bíði bana árlega af hennar orsökum. Árið 2020 koma til framkvæmda í borginni sérstök láglosunarbelti (ULEZ) með takmörkun á umferð í London. Á þeim verður aðeins hreinustu bílum leyft að aka endurgjaldslaust. Fyrir aðra fólksbíla, sendibíla og mótorhjól þarf að greiða 12,5 pund á dag og fyrir vöru- og flutningabíla 100 pund.
Frjálslyndir demókratar segjast óttast óáreiðanleika prófana á útblæstri bíla því eins og dæmin sönnuðu gætu jafnvel bílar sem haldið væri fram að væru „hreinir“ verið mengandi. Væri Volkswagenhneykslið kraftbirting þeirrar nauðsynjar að inn á ULEZ-svæðið færu árið 2020 aðeins mengunarfríir bílar eða bílar með afar litla losun gróðurhúsalofts. „Einfaldasta svarið er að segja að við viljum enga dísilbíla þar,“ segir Knigt.
Sérfræðingar segja að vandamálin í andrúmslofti Lundúna séu ekki bundin við VW-hneykslið. „Vandinn er fólginn í því sem kemur aftan úr bílum í akstri. Í raunheimum er það ekki bundið við bíla frá VW. Það vitum við öll, að allra nýjustu bílar losa kringum sex til sjö sinnum meira af niturdíoxíði... því verðum við að bíða og vona að bílarnir verði skárri eftir því sem þeir eru endurnýjaðir,“ segir Gary Fuller, prófessor við háskólann King's College í London.
agas@mbl.is