Norðmenn hafa í ár slegið öll fyrri met í rafbílakaupum og virðist ekkert lát ætla verða á vinsældum rafbíla í olíuríki frænda okkar. Vinsælustu bílarnir í innkaupum, bæði notaðir sem nýir, eru Nissan Leaf, Kia Soul og Volkswagen e-Golf.
Svo óseðjandi hafa Norðmenn verið að bílar sem annars voru farnir að rykfalla á lagerum umboða annarra landa hafa verið sendir til Noregs í stórum stíl og öðlast þar tafarlaust líf.
Hinn 9. nóvember síðastliðinn höfðu bílaumboðin norsku selt 22.267 nýja rafbíla. Til samanburðar var salan 15.415 eintök á sama tíma árið áður, reyndar 10. nóvember 2014. Þetta er langleiðina í 50% aukning og talar blaðið VG um kaupæði. Segir neytendur rífa út allt sem fáanlegt er af rafbílum hverju sinni og þorsti þeirra hafi ekki verið slökktur.
Þessar tölur segja þó alls ekki alla söguna því innfluttum nýjum bílum til viðbótar hafa verið fluttir inn um 4.000 notaðir rafbílar til Noregs það sem af er ári. Kia er gott dæmi um mikilvægi innflutnings notaðra rafbíla fyrir kaupendur. Frá áramótum hefur Kia selt 750 nýja Soul-rafbíla en fleiri hefur umboðið ekki getað skaffað, kvótinn frá framleiðandanum var ekki stærri í ár. Á sama tíma hefur Kia sent nýja bíla til annarra landa í Evrópu og þangað sækja bílasalar þá. Ekkert stoppar þá sem sólgnir hafa verið í Kia Soul-rafbílinn nýja því 1.400 notaðir hafa verið fluttir inn á árinu, eða tvöfalt fleiri en nýskráðu bílarnir sem umboðið hefur selt í ár.
Mikill kippur hljóp í innflutning notaðra rafbíla í Noregi árið 2013, aðallega þó Nissan Leaf. Sala nýrra Leaf-bíla tók flugið árið áður og innflutningur á notuðum eintökum fór fljótt á mikið skrið; jókst hvorki meira né minna en um 751% árið 2013 og nam 1.609 bílum. Varð Nissan Leaf í öðru sæti á lista yfir vinsælustu innfluttu bílana í Noregi það ár. Næstu tvö ár, 2014 og 2015, varð hann í efsta sæti. Er tíundi hver innfluttur notaður bíll í ár af gerðinni Nissan Leaf. Tveir aðrir rafbílar eru í öðru og þriðja sæti listans það sem af er ári, Kia Soul og tvinnbíllinn Mitsubishi Outlander.
agas@mbl.is