Allt ætlaði um koll að keyra í netheimum þegar myndir af fljúgandi bílum á vegi í kínverskri borg tóku að birtast. Voru þetta galdrar? Eða einhver yfirnáttúruleg öfl? Skýringin er fundin og hún er mun hversdagslegri.
Á myndbandi af atvikinu var engu líkara en bílarnir tækjust í loft upp upp úr þurru. Að minnsta kosti þrír bílar sáust fljúga á nánast sama stað. Atvikið átti sér stað á gatnamótum fjölfarinna gata í borginni Xingtai. Bílarnir virtust á flugi í nokkrar sekúndur en lentu svo með hvelli aftur á götunni.
Þeir sem urðu vitni af þessu sögðust hafa orðið mjög hræddir. Þúsundir deildu myndbandinu og allir höfðu kenningar um hvað væri á seyði.
Og hér er skýringin: Stálvír hafði fest í götusópara sem ók um gatnamótin. Vírinn sást ekki vel og því óku bílarnir yfir hann. Þegar svo strekktist á vírnum, er götusóparinn hélt leiðar sinnar lyfti hann bílunum sem voru ofan á honum upp.
„Ég var að keyra löturhægt,“ segir bílstjóri eins bílsins sem fór á flug við sjónvarpsstöðina CCTV. „Allt í einu var ég í loftinu. Götusóparinn dró vírinn á eftir sér og hann var einmitt undir bílnum mínum þegar það gerðist og því lyftist ég upp.“
Enginn slasaðist.