Þýski bílsmiðurinn Volkswagen gerir ráð fyrir því að þurfa kaupa til baka um 115.000 dísilbíla í Bandaríkjunum sem búnir eru tölvubúnaði til að snuða mengunarmælitæki skoðunarstöðva.
Þetta kemur fram í frétt í dag í blaðinu Süddeutsche Zeitung. Ber það fyrir sig heimildarmenn innan VW, sem segja að búist sé við því að þurfa kaupa fimmtung bílanna sem búnir voru blekkingarbúnaðinum. Í Bandaríkjunum eru þeir taldir alls vera um 580.000.
Í Evrópu eru bílarnir aftur á móti mun fleiri, eða 8,5 milljónir. Byrjað verður á því nú ú janúar að kalla þá inn tilbreytinga hjá umboðum í hverju landi fyrir sig.
Þegar AFP-fréttastofan leitaði staðfestingar hjá Volkswagen á frétt Süddeutsche sagði talsmaður VW að fyrirtækið vildi ekkert tjá sig um hana. Í fréttinni segir að endurkaup bílanna gæti annað hvort fólgist í endurgreiðslu eða að viðkomandi einstaklingi verði boðinn splunkunýr bíll með miklum afslætti. Búist er við að bandarísk yfirvöld taki senn afstöðu til þessa.