„Ofbeldi“ gegn bílum

Fækka á akreinum Grensásvegar milli Miklubrautar og Bústaðavegar í tvær …
Fækka á akreinum Grensásvegar milli Miklubrautar og Bústaðavegar í tvær og fjölga göngu- og hjólastígum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Varaformaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda er ómyrkur í máli um fyrirhugaða fækkun bílaakreina á Grensásvegi. Í færslu á persónulegri bloggsíðu sinni sakar hann borgaryfirvöld meðal annars um ofbeldi gegn þeim samgöngumáta sem flestir kjósi í Reykjavík. Engin slys hafi orðið á gangandi og hjólandi vegfarendum á vegarkaflanum.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti í vikunni að fækka akreinum á Grensásvegi á milli Miklubrautar og Bústaðavegar úr fjórum í tvær og bæta við göngu- og hjólastígum. Ólafi Guðmundssyni, varaformanni FÍB, lýst illa á áformin og sakar Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, og S. Björn Blöndal, formann borgarráðs, um að vera í forystu þeirra „sem vilja allt til vinna til að spilla samgöngumáta mikils meirihluta borgarbúa“.

Fullyrðir Ólafur að Grensásvegur á þessum kafla sé algerlega slysalaus á gangandi og hjólandi vegfarendum frá 2007 til 2014. Samkvæmt slysakorti Samgöngustofu virðist sú fullyrðing á rökum reist. Hins vegar hafa nokkur bílslys orðið á vegarkaflanum á þessu tímabili, þar á meðal árekstur tveggja bíla þar sem áttræður karlmaður slasaðist alvarlega en karlmaður á þrítugsaldri slasaðist lítillega í nóvember 2014.

Þá segir Ólafur að engar rauntalningar á umferð bíla á þessum kafli liggi fyrir og borgaryfirvöld styðjist aðeins við útreikninga og ágiskanir. Eins viti enginn hversu margir gangi eða hjóli yfir Grensásveg, né heldur hvar. Koma mætti fyrir tvöföldum hjólastíg austanmegin við götuna og mjókka miðeyjuna en það segir Ólafur að hafi verið fellt af núverandi meirihluta í fyrra. Þessu fylgi jafnframt að taka út hægribeygjuvasana við Bústaðaveg og auka þar á þær teppur sem eru fyrir.

„Af hverju í dauðanum að undirbúa þetta ekki betur, byggt á raunverulegum þörfum, talningum og útfærslum sem eru bæði ódýrari og skynsamari. Svarið er pólitískar kreddur, rétt[t]rúnaður og ofbeldi gagnvart þeim samgöngumáta sem flestir kjósa í Reykjavík,“ skrifar varaformaður FÍB.

Bloggfærsla varaformanns FÍB

mbl.is