Opel gefur innsýn í framtíðina

Nýr Opel GT verður heimsfrumsýndur í mars.
Nýr Opel GT verður heimsfrumsýndur í mars.

Velgengni síðustu missera gefur Opel byr undir báða vængi í þróunarstarfi fyrirtækisins. Nú er ljóst að bílsmiðurinn mun sýna nýja gerð af hinum goðsagnarkennda Opel GT á bílasýningunni í Genf í mars.

Hér er um að ræða hugmyndabíl sem af hálfu Opel er ætlað að gefa markaðnum innsýn í markmið sín til næstu framtíðar hvað varðar hönnun og tæknilegar lausnir.

Á sínum tíma var Opel GT þróaður út frá Opel Kadett B og framleiddur á seinni hluta sjöunda áratugarins og snemma á þeim áttunda. Um var að ræða tveggja sæta sportbíl með vélina framí og afturhjóladrif.

Samkvæmt óopinberum myndum er ljóst að hér verður um sterkar tilvísanir í hönnun þessa framúrstefnulega bíls, sem fyrst var kynntur til sögunnar á Frankfurt bílasýningunni árið 1965. Tvöfalt púst með GT merkinu fyrir miðju er til dæmis eitt af því sem dregur dám af  umræddum bíl sem var fyrsti hugmyndacbíllinn sem framleiddur var í Evrópu. Menn bíða því spenntir eftir að sjá heildarmyndina af þeim nýja í mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina