Viðfangsefni rannsakenda ýmiss konar og álitsgjafa eru af mörgum toga og nýjungar í þeim efnum þrýtur aldrei. Þannig hafa menn í Bretlandi tekið það upp hjá sér að reyna að komast að því hverjir séu verstir bílstjóra, alla vega þar í landi.
Í skoðanakönnun voru eittþúsund manns inntir álits á því hverjir að þeirra mati væru varasömustu og verstu bílstjórarnir. Hverjir væru líklegastir til að valda óhöppum á vegunum. Niðurstaðan var ungum ökumönnum og bílstjórum hvítra sendibíla í óhag.
Þeir hafa orð á sér fyrir að aka of greitt, svína í veg fyrir aðra og valda öngþveiti með framferði sínu í umferðinni. Margt af þessu var þegar á vitorðri flestra um unga ökumenn sendibíla en nú þykir það hafa verið formlega staðfest með rannsókninni.
Ungir bílstjórar sem ganga undir viðurnefninu „strákslegir ökufantar“ sakir framferðis síns í umferðinni voru taldir verstir allra. Sögðu 48% aðspurðra þá hættulegustu vegfarendurna. Þykir það styðja kenningar um að ökumenning hjá ungu fólki sé á niðurleið.
En ökumenn sendibíla, og þá sérstaklega hvítra, komu þar skammt á eftir, að mati 43% aðspurðra. Í norðausturhluta Englands eru þeir síst þokkaðir því þar sögðu 58% svarenda sendibílstjóra vera mestu plágu á vegunum. Betur komu þeir út í suðausturhluta landsins en þar sögðu 38% þá verri en aðrir.
Talsmaður lögfræðifyrirtækisins Cassell Moore sem fyrir könnuninni stóð, segir það ekki þurfa koma á óvart að ökumenn hvítra sendibíla fái slæma útreið. Sendibílum á vegunum hafi fjölgað um 63% á síðustu 20 árum. Mörg fyrirtæki hafi brugðist við því með að setja starfsmenn sína á sérstök námskeið til að þjálfa þá í meðferð bílanna. Ljóst væri að með aukinni netverslun og heimsendiþjónustu verslana, meðal annars, væru hvítir sendibílar orðnir fastir í sessi.
Í þriðja sæti á lista yfir hættulegustu ökumennina voru „aldraðir“ bílstjórar með 37% atkvæða. Þeir komu sérlega illa út í Wales þar sem 54% settu þá í efsta sæti, eða 4% fleiri en völdu strákslegu ökufantana. Í fjórða sæti urðu svo „mæður á leið með börnin í skóla“.
Könnunin þykir hafa verið konum hagstæð. Þær voru yfirleitt sagðar hegða sér bílstjóra best á þjóðvegum landsins. Aðeins 6% töldu þær hættulegustu keyrendurna. Styður það niðurstöður nýlegrar rannsóknar tryggingafélagsins Admiral sem leiddi í ljós, að konur væru öruggari bílstjórar en karlar; tækju minni áhættu og gerðust mun sjaldnar sekar um hraðakstur.
agas@mbl.is