„Lýsir brengluðu viðhorfi“

Ágúst Mogensen
Ágúst Mogensen mbl.is/SteinarH

„Það sem þarna sést lýsir brengluðu viðhorfi,“ sagði Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, í Kastljósþætti Ríkisútvarpsins í kvöld eftir að honum höfðu verið sýndar símaupptökur sem einstaklingar í röðum flutningabílstjóra hafa gert undir akstri og deilt sín á milli yfir netið. Fram kom í þættinum að aðstandendur hans hefðu að undanförnu safnað slíkum upptökum þar sem glæfraakstur sé meðal annars myndaður.

Fram kom í máli Ágústar að ekki væri spurning að framferði umræddra flutningabílstjóra væri ólöglegt og mikilvægt væri að tekið væri fastar á málum þar sem farsímar væru í notkun undir stýri. Lögreglan væri ekki að sinna þeim nægjanlega mikið. Þá þyrfti að hans mati að kanna hvort endurskoða þyrfti löggjöf í þessum efnum. Með þessu framferði væru bílstjórar bæði að stofna sér sjálfum í mikla hættu og öðrum í umferðinni. Rifjað var upp að sektir fyrir að nota farsíma undir stýri væri 5 þúsund krónur en 10 þúsund krónur fyrir að aka án öryggisbeltis.

Myndböndin, sem deilt er á Snapchat í hóp sem telur um eitt þúsund manns samkvæmt því sem fram kom í Kastljósþættinum, sýna akstur bæði í þéttbýli og dreifbýli. Meðal annars framúrakstur og við aðstæður þar sem umferð hefur verið mikil og aðstæður varhugaverðar. Nær undantekningalaust er um að ræða bílstjóra stórra fæutningabifreiða.

mbl.is

Bloggað um fréttina