Banaslysum fjölgaði 2015

Þétt umferð á hringveginum um París.
Þétt umferð á hringveginum um París. mbl.is/afp

Banaslysum í frönsku umferðinni fjölgaði um 2,4% á nýliðnu ári, 2015. Týndu alls 3.464 manns lífi á  vegum landsins.

Banaslysum hafði fækkað stöðugt í 12 ár þar til 2014, að þau tóku kipp upp á við aftur. Í fyrra biðu 83 fleiri bana en 2014  og var andlát 50 þeirra rakið til hraðaksturs.

Innanríkisráðherrann Bernard Cazeneuve segir að fleiri hafi brúkað einkabílinn í fyrra en um margra ára skeið. Rakti hann brotthvarf frá almenningssamgöngum til hryðjuverkaárásanna í París á árinu. Sömuleiðis hafi lækkun eldsneytisverðs stuðlað að aukinni notkun einkabílsins.

Meðalhraði í umferðinni í Frakklandi jókst árið 2015 en í könnun í apríl í fyrra játuðu 75% aðspurðra að þeir virtu ekki alltaf hraðamörk.

Þrátt fyrir ástandið segist ráðherrann í samtali við blaðið Le Parisien vera bjartsýnn á að banaslysunum fækki niður fyrir 2.000 árið 2020. „Það er takmarkið og það er raunhæft. Við þurfum kröftugar og metnaðarfullar aðgerðir. Þrennt skiptir þar mestu; aukið og hert eftirlit, meðvitund um hætturnar frá unga aldri og þrotlaus barátta gegn akstri undir áhrifum áfengis og lyfja,“ segir Cazeneuve.

mbl.is

Bloggað um fréttina