Aftur til framtíðar: DeLorean snýr aftur

DeLorean DMC-12 verður senn smíðaður á ný, eftir 34 ára …
DeLorean DMC-12 verður senn smíðaður á ný, eftir 34 ára hlé.

Hér kemur eitthvað fyrir alla retró-bílanördana. Bandaríski sportbíllinn sem notaður var til tímaferðalaga í hinum geysivinsælu kvikmyndum Aftur til framtíðar snýr senn aftur.

Bílaframleiðandinn DeLorean Motor Company kynnti nýverið áætlanir sínar um að smíða 300 stykki til viðbótar af hinum goðsagnakennda bíl DeLorean DMC-12, eftir rösklega 34 ára hlé.

Bíllinn verður smíðaður í Texas og verður notast við upprunaleg mót og áhöld við gerð bílanna 300. Verðið verður ekki undir 100.000 Bandaríkjadölum – um 12,7 milljónir íslenskra króna – og munu bílar með sérstaklega aflmiklar vélar kosta enn meira.

Vélarnar í téðum DeLorean DMC-12 bílum verða uppfærðar til nútímans enda hefur ýmsu fleygt fram í hönnun bílvéla síðan 1982. Útlit bílsins, sem iðulega skartaði mattsilfraðri áferð í burstuðu stáli, verður eftir sem áður sú sama. Þá verða vænghurðirnar vitaskuld á sínum stað.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina