Samgöngustofa sendi í gær frá sér tilkynningu þar sem eigendum nýrra bíla er bent á að svokölluð LED-ljós, sem eru í mörgum nýjum bílum og fara sjálfkrafa í gang þegar kveikt er á bílnum, eru ekki hæf til aksturs.
„Margir ökumenn nýrra bifreiða eru ólöglegir við akstur sökum ljósaskorts. Margar nýjar bifreiðar eru búnar ljósum sem kvikna þegar bíllinn er ræstur og í fyrstu má halda að um sé að ræða ökuljós en sú er ekki raunin,“ segir í tilkynningu frá Samgöngustofu.
Er á það bent að ökumenn verði sjálfir að sjá til þess að ljós sem eru hæf til aksturs séu kveikt. „Þessi ljósabúnaður kallast dagljós (LED ljós) og er leyfður á Evrópska efnahagssvæðinu og af þeim sökum er heimilt að flytja slíkar bifreiðar inn til Íslands. Það gegnir hinsvegar öðru máli um notkun þessa búnaðar hér á landi. Það er ljósaskylda hér á landi - allan sólarhringinn og allan ársins hring - og því þarf ökumaður að gæta þess að ökuljósin, ekki stöðuljósin, séu kveikt á meðan á akstri stendur,“ segir í tilkynningunni.
Í frétt Morgunblaðsins, sem birt var á mbl.is í morgun, kom fram að LED-ljós væru ekki lögleg hér á landi en sá misskilningur leiðréttist hér með.
Hér má lesa nýja leiðrétta útgáfu fréttarinnar: