Trylltasti bíllinn á bílasýningunni í Genf – og jafnvel jarðarkringlunni allri – er án nokkurs vafa hinn sænski Koenigsegg Regera, sem þar kom fyrst fram opinberlega í lokagerð. Afar áhugaverður hugmyndabíll var sýndur í Genf fyrir ári, en Regera hefur tekið miklum breytingum í millitíðinni.
Svo ákaft hefur þróunarferlið verið að gerðar hafa verið um 3.000 breytingar á bílnum milli ára. Mest munar þar um að verulega tókst að létta hann. Með olíu, kælivatni og eldsneyti vegur hann einungis 1.590 kíló.
Það hefur verið einkennandi fyrir sýninguna í Genf, að þar hafa litið dagsins ljós margir og magnaðir ofurbílar. Á því er engin breyting í ár og er Koenigsegg Regera verðugur merkisberi þeirra. Meðal annarra einstaklega áhugaverðra var hinn franski Bugatti Chiron með hvorki meira né minna en 1.478 hestafla aflrás, en hann er tæpu hálfu tonni þyngri en sænska undrið.
Bílsmiðirnir í Ängelholm við Eyrarsund halda því fram að aflrásin í Regera muni skila rúmlega 1.500 hestöflum niður til hjólanna. Togið verður í meira lagi eða um 2.000 Nm. Er það óheyrilegur kraftur sem á sér tæpast hliðstæðu en sérstakur tölvubúnaður, Direct Drive, sér um að það skili sér með sem skilvirkustum hætti.
Þrátt fyrir að háar tölur er viðbragðsflýtir Regera ekki eins hrikalegur og Bugatti Chiron. Regera er 2,8 sekúndur í hundraðið úr kyrrstöðu en franski bíllinn aðeins 2,5 sek. En léttari bíll og umframafl gerir hinum sænska kleift að draga Bugatti-bílinn uppi og taka fram úr. Nær Regera 200 km ferð eftir 6,6 sekúndur en Chiron 6,5 sek. Sem sagt orðnir nær jafnhliða en það er þá sem sænski bíllinn flýtur örugglega fram úr og nær 300 km hraða eftir 10,9 sekúndur og 400 km eftir aeins 20 sek. Hvort tveggja til að vera dolfallinn yfir! Hraðar hann sér úr 150 í 250 km/klst á aðeins 3,9 sekúndum.
Bugatti Chiron er orðinn talsvert á eftir þegar hann nær 300 km/klst, en þeirri ferð nær hann á 13,5 sekúndum. Með öðrum orðum er Regera 2,6 sekúndum á undan þá.
Þótt Reagera hafi verið stjarnan í Genf sýndi Koenigsegg þar annan nýjan bíl, Agera Final Series. Sá fyrsti í þeirri röð er One of 1, sem ekki ber að blanda saman við One:1 bílinn þótt hann hafi verið hönnuðunum innblástur við sköpun nýja bílsins. Í honum er sama 1.360 hestafla vélin, V8 með tvöfaldri forþjöppu, og er Agera-bíllinn sagður líflegri. Koenigsegg mun aðeins smíða tvo Final Series bíla til viðbótar og munu vellauðugir eigendur þeirra koma talsvert að hönnuninni og útfærslu. Verða þeir því sérdeilis einstakir í sinni röð.
Í fréttatilkynninu vegna frumsýningarinnar í Genf segir Koenigsegg, að mikil leit hafi verið gerð til að finna bæði afkastamestu og öruggustu rafhlöðuna fyrir rafmótorinn í Regera-bílnum. Niðurstaðan er 800 volta 4,5 kílóvatta rafgeymir. Er það í fyrsta sinn sem geymir sem býr yfir 800 volta spennu er brúkaður í rafbíl.
agas@mbl.is