Bylting í dönskum bílasamgöngum

Vetnisbíll á nýrri tankstöð í Danmörku. Tanka má vetnisbíla á …
Vetnisbíll á nýrri tankstöð í Danmörku. Tanka má vetnisbíla á nokkrum mínútum. Í framtíðinni munu Danir geta keyrt um á vetni sem framleitt er af umframstraumi frá vindmyllum í orkudreifikerfinu. Ljósmyndir/H2Logic

„Það er eitthvað freistandi við rafbíla. Þeir eru meira og minna hljóðlátir og svara leiftursnöggt þótt tiltölulega létt sé stigið á inngjöfina. En hvaða gagn er að því þegar menn vilja skreppa frá Skagen til Kaupmannahafnar og rafhleðslan dugar aðeins nokkur hundruð kílómetra?“

Þannig er spurt í upphafi umfjöllunar um vetnisvæðingu bílsamgangna í Danmörku í einu stærsta blaði landsins, Jyllandsposten, fyrir helgi. Takmarkað drægi er helsta ástæða þess að rafbílarnir hafa enn ekki rutt bensínbílunum af vegunum. En það á kannski eftir að breytast á næstu árum, þökk sé þróun sem líklega mun koma flestum í opna skjöldu.

Í mestu kyrrþey er vetni nefnilega að verða lykilþáttur í nýrri framtíð þar sem Danmörk verður ekki lengur háð jarðefnaeldsneyti eins og olíu og kolum. Vetnið er lykillinn að því að bensínbílum verði ofaukið á vegunum.

Á sumri komanda verður Danmörk fyrsta landið í veröldinni þar sem hægt verður að aka hringinn í kringum landið án þess að þurfa stoppa tímum saman til áfyllingar eða rafhleðslu. Það verður að þakka neti 12 tankstöðva fyrir vetni sem lokið verður við að reisa í vor. Þá munu vetnisbílar getað ekið frá Skagen til Kaupmannahafnar í einum áfanga, ólíkt venjulegum rafbílum, að því er fram kemur í umfjöllun um vetnisvæðingu í dönskum bílasamgöngum í blaðinu Jyllandsposten.

Eins og rafbílar

Vetnisbílar eru í aðalatriðum eins og rafbílar en nota vetni sem aflgjafa en ekki rafhlöður. Tanka má vetnisbíl álíka hratt og bensínbíla. Þar með er komist hjá því að bíða klukkustundum saman eftir að endurhlaða rafgeyma. Vetninu er breytt í raforku við efnahvörf í vél vetnisbíls. Þótt aðeins séu um eitt hundrað slíkir komnir á götuna í Danmörku þá telja fróðir að það muni breytast hratt og þeim fjölga jafnt og þétt.

„Þróunin er mjög kröftug um þessar mundir. Bílaframleiðendur verja nú um stundir miklum fjárhæðum í þróun og smíði vetnisbíla,“ segir Tejs Laustsen Jensen, framkvæmdastjóri Partnerskabet for Brint og Brændselsceller í Jótlandspóstinum. Segir hann tankstöðvavæðinguna í Danmörku og verðandi framleiðslustöð fyrir vetni nyrst á Jótlandi vekja mikla athygli í öðrum löndum og með framvindunni fylgist margir náið með. Stór hluti þess vetnis sem nú er meðal annars brúkað á bíla í Danmörku er innflutt frá Þýskalandi. Það mun breytast 2017 þegar starfsemi vetnisstöðvarinnar Hydrogen Valley í Hobro við Mariagerfjörð hefst. Þar verður vindorka danskra vindmylla beisluð til framleiðslu vetnis með rafgreiningu. Verður verksmiðjan sú stærsta sinnar tegundar í Danmörku.

„Snilldin við þessa framleiðslu er að við munum framleiða vetni á þeim tíma sólarhringsins þegar meira rafmagn er í dreifikerfinu en þörf er á og rafmagnið ódýrt. Í stað þess að selja Þjóðverjum „umframorkuna“ ódýrt breytum við henni í vetni og seljum meðal annars til notkunar í samgöngum,“ segir stöðvarstjórinn Lars Udby í Jyllandsposten.

Á sama tíma og Silicon Valley í Kaliforníu í Bandaríkjunum er miðpunktur nýtækni, er Hydrogen Valley og Cemtec-iðngarðarnir í Hobro á góðri leið með að verða dönsk hliðstæða innan vetnisgeirans. Frá árinu 2001 hefur Hydrogen Valley skapað rúmlega 200 ný störf á Jótlandi norðanverðu og eykst fjöldinn til muna þegar vetnisverið hefur starfsemi. Í nágrenni þess skapast grundvöllur fyrir frekari iðnað þar sem fyrirtæki geta losnað við kostnað með því að taka vetni inn í starfsemi sína með leiðslum beint frá verinu.

Umframorka nýtt til vetnisframleiðslu

Við dönskum raforkuneytendum blasir að orkan mun lækka í verði fái hinn upprennandi vetnisiðnaður kröftugan vind í seglin. Rannsóknir sýna, að verði snjalltækni beitt við raforkunotkun og hún gerð sveigjanlegri gæti sparnaður samfélagsins klárlega numið um milljarði danskra króna árið 2035. Þetta er niðurstaða greiningar Dansk Energi og Energinet.dk. Í þessu dæmi vegur hlutur vetnis þungt, kemur þar fram.

Stór hluti danska orkudreifikerfisins reiðir sig á vindorku og sólorku. En þegar lygnir og dregur ský fyrir sólu dettur sú framleiðsla niður og þá verða Danir að flytja inn raforku frá grannlöndunum, oftast við háu verði. Þessu mætti komast hjá ef takast mætti að geyma umframorkuna sem til að mynda vindmyllurnar framleiða á nóttunni. Er það verðandi viðfangsefni að þróa leiðir til þess svo ekki þurfi að stöðva vindmyllurnar þegar hressilega blæs.

Þar gæti vetni komið verulega við sögu, að sögn Steen Vestervang hjá Energinet.dk. Það gæti bætt upp hvort sem væri þegar raforkuframleiðslan er mikil eða of lítil. Umframorkuna gætu vetnisverksmiðjur breytt í vetni sem geyma mætti til seinna brúks. Rafgreiningin gæti tekið við umframstraumnum og klofið vatnið niður í vetni og súrefni. Stóra áskorunin er að reisa innviði til þess. Það felur í sér miklar fjárfestingar en með tímanum mun bæði tæknin verða skilvirkari og ódýrari.

Aðeins mun taka þrjár mínútur að fylla tóman tank vetnisbíla framtíðarinnar. Á tankfylli munu þeir draga allt að 700 km. Þeir menga ekki neitt og eina afurðin sem þeir skila frá sér er hreint vatn. Vetni mun ekki bara knýja fólksbíla, heldur til dæmis einnig hópferðabíla og vörulyftara.

Vetnisbílavæðing hröð í Danmörku

Frá árinu 2011 hefur verið stefnt að því að vetnisbílar næðu fótfestu í Danmörku á árinu 2015. Allt bendir til að það hafi heppnast og að árið í fyrra hafi markað þáttaskil í vetnisvæðingu í Danmörku.

Vetnisbílum fjölgaði á árinu fjórfalt eða um 52 eintök. Er þá að finna í 10 bæjum um land allt. Um áramótin hafði vetnisbílaflotinn samtals lagt að baki 870.000 kílómetra frá því fyrsti bíllinn kom á götuna 2011.

Nokkrir bílaframleiðendur bjóða nú vetnisbíla á markaði í Danmörku og fleiri munu bætast við á næstu misserum. Ívilnanir til kaupa á slíkum farartækjum hafa verið framlengdar til 2018, en það ár er vonast til að um fimm hundraðasti vetnisbíllinn komi á götuna. Þrjár nýjar tankstöðvar voru opnaðar á árinu og verða alls 12 víðsvegar um land í byrjun sumars.

88% meira vetni á bíla 2015

Nú er hægt að tanka vetni á bílinn í átta dönskum bæjum. Tankvæðingin verður komin á það stig á næstu mánuðum, að tankstöð verður í innan við 15 kílómetra fjarlægð frá heimilum 50% þjóðarinnar. Sala á vetni til notkunar á bílum jókst stórlega í fyrra. Til dæmis jókst hún um 43% á öðrum ársfjórðungi. Neyslan þá mánuði þrjá dugði til sem svarar 125.000 kílómetra aksturs. Dælt var 88% meira vetni á bíla árið 2015 miðað við árið áður. Vetnisnotkunin allt árið 2011 samsvarar aðeins eins mánaðar dælingu nú til dags á tankstöðinni í suðurhöfninni í Kaupmannahöfn. agas@mbl.is

Mikil fjölgun hefur orðið á vetnisbílum í Danmörku.
Mikil fjölgun hefur orðið á vetnisbílum í Danmörku.
Á tankfylli dregur vetnisbíll um 700 kílómetra.
Á tankfylli dregur vetnisbíll um 700 kílómetra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina