„Við vitum til þess að þetta sé vaxandi vandamál í Evrópu og Bandaríkjunum,“ segir Stefán Ásgrímsson, ritstjóri FÍB-blaðsins, um tækni sem bílþjófar eru farnir að nýta sér í auknum mæli.
Dæmi eru um Íslendinga sem hafa lent í því á ferðalögum erlendis að bílaleigubílum þeirra er stolið, eða verðmætum úr þeim, án þess að nokkur merki sjáist um innbrot.
Hafa þjófarnir þá náð sér í búnað sem nemur merki frá fjarstýrðum bíllyklum þegar þeir eru notaðir við að læsa bílunum eða opna þá.
Stefán segir þjófana kaupa þennan búnað á netinu án mikils tilkostnaðar. Hann skrifaði um þetta á vef FÍB á síðasta ári og þar stóð m.a.:
„Þjófar með smá kunnáttu í rafeindatækni geta keypt rafeindabúnað ásamt teikningum og sett saman tæki sem nær sambandi við þjófnaðarvörn bílsins og getur látið hana hætta að „heyra“ merkið frá fjarstýringu bíleigandans.“
Stefán segir nýjustu tæknina í þessu vera búnað sem tekur upp merkið til síðari „nota“. „Búnaðurinn nemur merkið frá fjarstýringu þess sem læsir bílnum, tekur það upp og vistar. Þar með er þjófatækið orðið eins konar fjarstýring sem opnar læstan bílinn og jafnvel gerir mögulegt að gangsetja hann, ef um er að ræða bíl með lyklalausu aðgengi,“ segir Stefán, og mælir með að fólk sleppi því að nota fjarstýringarnar og opni bílana handvirkt með lyklunum.
Stefán segir að þessi mál séu orðin býsna algeng erlendis. Í fyrrnefndri umfjöllun á vef FÍB var vitnað til viðvörunar sem lögreglan í Svíþjóð sendi til bíleigenda í fyrra. Þar var varað við þjófum sem kæmu sér fyrir með svona búnað á bílastæðum við verslanamiðstöðvar. Hvatti lögreglan fólk til að hlusta vel hvort bíllinn læstist eða ekki, eða læstist og opnaðist strax aftur. Best væri að yfirgefa ekki bílinn fyrr en hann væri tryggilega læstur og ganga úr skugga um að svo væri með því að taka í hurðarhúninn.
„Bílaframleiðendur hafa verið að reyna að sporna við þessu, með því að láta hanna nýja gerð bíllykla, en menn virðast alltaf finna einhvern mótleik. Þetta segir manni bara eitt, að því einfaldari sem bílarnir eru því betri eru þeir,“ segir Stefán en hann varð þess áskynja á nýlegum fundi með ritstjórum bílablaða í Evrópu að t.d. í Þýskalandi eru þarlendir neytendur farnir að flýja dýra bíla með flóknum tækjabúnaði og leita meira í einfaldleikann, með kaupum á bílum á borð við Dacia Logan, sem Renault framleiðir í Rúmeníu.
„Langir biðlistar hafa myndast í Þýskalandi eftir þessum Dacia-bílum en Renault notar í þessa framleiðslu afganga úr bílum sem hætt er að framleiða. Þeir eru ekki beint fallegir en eru hræódýrir og einfaldir.“
Stefán segist ekki hafa heyrt dæmi þess að svona þjófnaðir hafi komið upp hér á landi. Undir það taka þeir lögreglumenn sem Morgunblaðið ræddi við. Talsmenn bílaleiga hafa heldur ekki heyrt dæmi um að Íslendingar hafi lent í svona hremmingum á ferðum sínum erlendis. Rannsóknarlögreglumaður taldi ólíklegt að slík mál mundu koma upp í stórum stíl eða með skipulögðum hætti, því erfitt væri að koma heilu bílunum úr landi eða verðmætu þýfi í miklu magni.