Um eitt þúsund kílómetrar af frönskum þjóðvegum verða nýttir til raforkuframleiðslu. Í því skyni verða vegirnir „teppalagðir“ nýstárlegum sólrafhlöðum á næstu fimm árum frá og með komandi vori.
Öllu heldur mætti segja að vegirnir verði „flísalagðir“ því nýju rafhlöðurnar eru fremur eins og flísar í laginu og þaktar afar slitþolnu gerviefni. Hver kílómetri er sagður geta gefið af sér rafmagn sem nemur opinberri raforkuþörf þúsund manna þorps.
Umhverfisráðherrann Segolene Royal hefur samþykkt áætlun þessa um virkjun veganna til orkuframleiðslu. En bíleigendum til lítillar gleði segir hún verkefnið verða fjármagnað með hækkun skatta á olíu og gas. Wattway er verkefnið nefnt og fyrir því stendur franskt gatnagerðarfyrirtæki að nafni COLAS. Mun þetta vera í fyrsta sinn í veröldinni sem tilraun af þessu tagi er gerð og tækni rafhlöðuflísanna sögð alveg ný.
Fyrirtækið hóf rannsóknir á því árið 2005 hvernig nota mætti samgöngukerfið til að framleiða raforku á vistvænan hátt. „Um 90% tímans eru vegirnir berir fyrir geislum sólarinnar og því upplagt yfirborð til að þróa sem orkugjafa,“ segir rannsóknarstjóri COLAS, Jean-Luc Gauthier, í blaðaviðtali. Hann bætir við að búið sé að tryggja í þróunarferlinu að sólnemarnir í rafhlöðuplötunum skemmist ekki af völdum ofurþungra vörubíla. Ennfremur að búið sé að girða fyrir að flísarnar verði sleipar í t.d. vætu. Hann segir að laga megi rafhlöðutækni þessa að aðstæðum á „alls konar vegum“.
Gauthier segir það einnig kost við þessa aðferð til raforkuframleiðslu að hún gangi ekki á ræktarland og raski ekki landslagi.
Mun 40 fersentímetra plata af þessum nýju sólrafhlöðum duga til að kveikja um 100 lítil ljós. Fylgir fregnum, að eins kílómetra vegarkafli þakinn skífunum dugi fyrir allri opinberri lýsingu í 5.000 manna bæ.
agas@mbl.is