Yfirmenn hjá þýska bílrisanum Volkswagen hafa hafnað algjörlega tillögum stjórnar fyrirtækisins um að þeir gefi eftir árlegar bónusgreiðslur í ár.
Sjálfir hafa þeir hins vegar samþykkt að óbreyttir starfsmenn VW verði að herða sultarólina vegna fyrirsjáanlegs samdráttar vegna þverrandi bílasölu í framhaldi af útblásturshneyksli sem við fyrirtækið er kennt og upp komst í fyrrahaust.
Frá þessu skýrði þýska vikuritið Der Spiegel sl. fimmtudag. Segir ritið, að þrátt fyrir óvissu um framtíð fyrirtækisins í framhaldi af hinu umfangsmikla hneyksli sem snýst um búnað sem komið var fyrir í dísilbílum samsteypunnar til að blekkja mengunarmælitæki vilji æðstu menn ekki missa þennan spón úr aski sínum.
Spiegel segir að framkvæmdastjórn Volkswagen sé í sjálfu sér reiðubúin að gefa eitthvað eftir af bónusum sínum, en alls ekki að afþakka þá með öllu. Þetta gerist á sama tíma og verkalýðssamtök í Þýskalandi hafa verulega vaxandi áhyggjur af því að skammt sé í að Volkswagen grípi til uppsagna í bílsmiðjum fyrirtækisins þar í landi. Aðhaldsaðgerðir í rekstrinum vegna afleiðinga hneykslisins hljóti ótvírætt að enda með umfangsmiklum uppsögnum.
„Við höfum á tilfinningunni að dísilvélahneykslið verði brúkað sem afsökun fyrir uppsögnum sem enginn ýjaði að fyrr en fyrir tveimur mánuðum,“ segir í yfirlýsingu frá stéttarfélagi bílsmiða, IG Metall.
Nýr forstjóri VW, Matthias Müller, hefur tilkynnt stjórn fyrirtækisins, að grípa verði til sparnaðar í rekstri, „allt frá stjórnendum og niður í starfsmenn á verksmiðjugólfinu“, vegna útblásturshneykslisins sem gæti átt eftir að þýða stjarnfræðileg útgjöld fyrir VW vegna dómsmála og bóta, en um 11 milljónir bíla koma þar við sögu.
Að sögn Der Spiegel hlaut fyrrverandi fjármálastjóri Volkswagen, Hans-Dieter Pötsch, næstum 10 milljónir evra í kaupauka í fyrra. Forstjórinn burtrekni, Martin Winterkorn, var kvaddur með rausn eftir að svindlið kom fram í dagsljósið. Fékk hann næstum þriggja milljóna evra bónusgreiðslu, að sögn tímaritsins.
agas@mbl.is