Dýrt að spenna ekki beltin í rútum

Með haustinu verður skylt að vera með bílbelti spennt í hópferðabílum í Noregi. Vanræksla á þeirri skyldu varðar allt að 1.500 norskra króna sekt, jafnvirði um 22 þúsund íslenskra króna.

Samgöngustofan norska er að hleypa af stokkum kynningarherferð vegna þessa. Þeir sem spenna ekki belti þar til sektir koma til framkvæmda verða góðfúslega áminntir um reglurnar og hver viðurlögin við brot á þeim verða.

Um þriðjungur ekki spenntur

„Það eru mjög margir sem gleyma að spenna belti þó að þau séu fyrir hendi í rútum og strætisvögnum. Við viljum að það verði hinn eðlilegasti og sjálfsagðasti hlutur að brúka þau, segir í tilkynningu frá umferðardeild samgöngustofunnar.

Rétt fyrir páska var gerð könnun á notkun öryggisbelta í hópferðabílum í Noregi. Af 16.000 farþegum voru 3.600 sem sinntu því ekki að spenna beltin. Vestlendingar virðast lengst komnir í að aðlaga sig nýju reglunum því aðeins 4% þeirra höfðu látið hjá líða að spenna beltin. Á landsvísu var hlutfallið miklu hærra eða 22%.

Börnin á ábyrgð ökumanns

Í umfjöllun norskra fjölmiðla um nýju sætisbeltareglurnar kemur fram að almenningi finnst það einkennilegt að áfram verður heimilt að standa í strætisvögnum og engin sekt við því þótt viðkomandi farþegar séu í engin belti festir. Undanþegnir beltanotkuninni verða strætisvagnar í innanbæjarakstri, og mun það vera í samræmi við reglur Evrópusambandsins.

Rétt eins og í venjulegum fólksbílum verður það á ábyrgð bílstjórans að farþegar undir 15 ára aldri spenni bílbeltin.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina