Einhverjum landsmönnum brá nokkuð við er þeir fengu óvenjulegt símtal í síðustu viku, er símsvari hringdi í þá og spurði hvort þeir væru að hugleiða bílakaup. Um var að ræða óvenjulega markaðsaðferð fyrirtækisins Betri bílakaup, sem þjónustar fólk sem vill flytja inn bíl að utan.
„Við vorum að prófa þetta og þetta fór ekkert voðalega vel í landann,“ segir Brynjar Valdimarsson sem rekur Betri bílakaup ásamt félaga sinum. Hann segir úthringileiðina hafa verið setta í pásu í bili. „Við ætlum að nota hefðbundnar auglýsingar á næstunni - útvarp, facebook og svona.“
Þeir keyptu úthringiþjónustuna og sjálfur talaði hann við lögfræðing sinn áður en þeir hófu úthringingarnar til að kanna hvort aðferðin væri ekki örugglega lögleg. „Mér fannst þetta persónulega vera sniðugt, en það voru ekki allir sáttir við að fá svona hringingar og þetta hefur svo sem ekki verið reynt á Íslandi áður.“
Brynjar segir Betri bílakaup aðstoða fólk við leit og innflutning á bílum frá Evrópu og Bandaríkjunum. „Við erum þjónustuaðili og tökum að okkur að flytja inn bíla fyrir fólk.“ Hann nefnir sem dæmi viðskiptavin sem langi í Nissan Leaf. Þeir taki að sér að leita uppi slíka bíla í Bandaríkjunum fyrir fast gjald og ef viðkomandi ákveði að kaupa bílin þá fari þeir með viðkomandi yfir allt það sem farið getur úrskeiðis í kaupunum og finni besta tilboðið. „Þú borgar svo sjálfur bílinn á bílasölunni úti, en við sjáum um flutning og skráningu fyrir þig og komum honum hingað heim.“
Brynjar segir bílana úti yfirleitt töluvert ódýrari, þó hægt sé að finna dæmi um annað. Mismunandi sé hins vegar hvort hagstæðara sé að taka bíla inn frá Bandaríkjunum eða Evrópu. Hann nefnir sem dæmi að bensínútgáfu af Kia Sorrento jeppa megi fá á mjög góðu verði frá Bandaríkjunum, en þar fáist ekki díselútgáfan. „Hana geturðu hins vegar fengið í Evrópu á ekki jafn góðu verði, en samt ódýrari en hér heima.“ Munað geti um hálfri milljón króna á þeirri útgáfu í Evrópu og hér heima, en um tveimur milljónum á bensín jeppanum frá Bandaríkjunum. „Það fer svolítið eftir útblæstri og tvinnbílar eru til dæmis hagstæðir,“ segir Brynjar og nefnir Chevrolet Volt í þessu sambandi.
Ekki er langt síðan fyrirtækið var stofnað, en Brynjar segir það hafa farið vel af stað og sjálfur hafi hann flutt inn nokkra bíla fyrir sjálfan sig undanfarin ár. „Þetta er raunverulegur kostur fyrir fólk.“
Nokkuð var um að Íslendingar flyttu inn bíla að utan á árunum fyrir hrun og telur Brynjar þetta vera að aukast aftur, enda hafi fólk meiri aðgang að fjármagi en það hafi haft undanfarin ár. „Við fluttum t.d. inn bíl fyrir fatlaða konu og hann kostaði sjö milljónir hingað kominn í stað 12 milljóna hér heima.“ Þá hafi þeir verið í sambandi við Öryrkjabandalagið og bent þeim á bíl með lyftu sem kostaði 39.000 evrur, eða um 5.5 milljónir króna. „Hér heima eru þessir bílar eru að kosta 12-15 milljónir króna.“