Minnst ánægja eigenda Dodge

Úrval Dodge-bíla.
Úrval Dodge-bíla.

Fyrir flesta er það veruleg skuldbinding að festa fé sitt í bíl. Því er það talsvert atriði að vel til takist og bíllinn standi undir væntingum – hvort sem notaður er eða nýr. Að hann veiti eiganda sínum ánægju.

Því er ekki svo fyrir að fara hjá öllum og margir verða fyrir óþægilegum og svekkjandi bilunum sem valda bæði vonbrigðum og umfram fjárútlátum. Það er sem sagt ekki auðvelt að rata á rétta niðurstöðu; hvað skal kaupa og hvað forðast, ef svo mætti segja.

Ýmis atriði bílanna könnuð

Í því sambandi getur verið gagnlegt að læra af reynslu annarra, hvaða einkunn bíleigendur gefa bílmódelinu sem þeir keyptu. Þeir sem vilja vanda valið vestur í Bandaríkjunum reiða sig nokkuð á árlegar mælingar greiningarfyrirtækisins J.D. Power.

Það hefur fengist um árabil við að mæla ánægju bíleigenda með fararskjóta sína og birtir árlega niðurstöður úr þeim rannsóknum. Þykir útkoman jafnan athyglisverð en í nýjustu könnuninni voru bílar af árgerðinni 2013 teknir fyrir og mat lagt á áreiðanleika þeirra út frá reynslu eigendanna.

Eigendur þessara þriggja ára gömlu bíla voru beðnir að gera grein fyrir bilunum og tæknilegum vandamálum í þeim síðustu 12 mánuðina. Þeir voru einnig spurðir um nytsemi bílanna og ánægju sína af því að eiga þá. Máli skiptir í því sambandi að vél og gírkassi virki eins og vera ber, að gæði innréttinga séu veruleg og tæknilegar lausnir eins og gps-leiðsögubúnaður standi undir væntingum.

Dodge dólar á botninum

Rannsókn J.D. Power er með öðrum orðum einkar umfangsmikil. Undir í henni voru rúmlega 33 þúsund bílar. Fyrir bílaframleiðendur hefur það mikla þýðingu að koma vel út úr henni, bæði virðingarinnar vegna og stöðu á markaðinum.

„Allir nýir bílar eru góðir“ er gömul klisja sem oft heyrist. Hjá greiningarfyrirtækinu fyrrnefnda taka menn síst undir það. Rannsóknin leiðir í ljós að greinarmunur er á bílmódelum, en alls 34 bílamerki komu við sögu. Og býsna miklir milli topps og botns á mælikvarðanum yfir ánægjuna af því að eiga viðkomandi bíla. Á botninum var Dodge með einkunnina 208, sem þýðir að 208 bilanir urðu í hverju hundraði Dodge-bíla. Næstneðst var Ford-merkið með bilanatíðnina 204 og í þriðja neðsta sæti varð smábíllinn Smart með einkunnina 199. Í fjórða neðsta sæti varð Land Rover með 198 og í fimmta sæti Jeep með 181 bilun á hundrað bíla.

Mikil sátt með Lexus og Porsche

Tvö bílamódel skáru sig nokkuð úr og voru á toppi ánægjulistans; Lexus og Porsche. Best kom Lexus út en þriggja ára bílar af þessu lúxusmódeli Toyota biluðu langsjaldnast á þriðja ári, eða 95 sinnum á hvert hundrað, þ.e. innan við ein bilun á bíl. Porsche var skammt á eftir með stuðulinn 97. Í þriðja efsta sæti varð bandaríska merkið Buick með 106 bilanir, Toyota í því fjórða með 113 og í fimmta sæti varð GMC með 120.

Rúmlega helmingur bíleigendanna, eða 55%, kvaðst myndu kaupa annan sama merkis ef endurnýjun væri á dagskrá. Ástæðuna sögðu þeir að reynsla þeirra af viðkomandi bílum hefði verið umfram væntingar og þeir bilanafríir. Aðeins 40% þeirra sem orðið höfðu fyrir þremur bilunum eða fleiri kváðust myndu kaupa aftur sama merki, að sögn J.D. Power.

Meðaltal allra bílanna reyndist 152 bilanir á hvert hundrað þeirra. Þeir sem lakast komu út biluðu að meðaltali tvisvar sinnum oftar en þeir sem sjaldnast biluðu.

Í það heila leiddi rannsóknin í ljós, að gæði bandarískra bíla eru á uppleið, svo sem hefur verið þróunin undanfarin ár.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina