Þrír þýskir vinir eru nú staddir á Íslandi á Delorean-sportbílunum sínum en þessi tegund bíla öðlaðist heimsfrægð í hinum vinsælu kvikmyndum Back to the Future.
Vinirnir eru á ferðalagi um heiminn á bílunum og er Íslandi nýjasti viðkomustaðurinn. Þeir komu til Reykjavíkur á miðvikudaginn og ætla þeir að ljúka ferðalaginu á Seyðisfirði, þaðan sem ferðinni er heitið með Norrænu til Danmerkur. Á leiðinni austur á land aka þeir gullna hringinn, skoða Seljalands- og Skógarfoss og einnig Jökulsárlón.
„Þegar fólk spyr hvers vegna við erum á þessu ferðalagi höfum við eiginlega ekkert svar. Við gerum þetta vegna þess að við getum það. Við viljum líka sýna fólki að bílarnir eru traustir og geta farið langar vegalengdir,“ segir Wolfgang Hank.
„Við náum líka að tengja eigendur Delorean bíla saman. Við höfum hitt þá í mörgum borgum og þeir hafa tengst í gengum okkur, sem er hið besta mál.“
Spurður út í íslenska Delorean-eigendur segir hann að einn hafi haft samband við þá í gegnum Facebook. „Hann á Delorean en ekur honum ekki, sem er sorglegt. Bíllinn er í bílskúr, en hann er ekki gerður til þess. Það er hræðilegt að hann skuli ekki aka honum.“
Hank er eigandi verkstæðis í Bæjaralandi sem sérhæfir sig í Delorean bílum. Viðskiptavinirnir koma víða að úr Evrópu. Hann segir að stórt Delorean-samfélag sé í Þýskalandi þar sem eru um 500-600 bílar þeirrar tegundar. Einnig hefur sérstakur Delorean-klúbbur verið starfræktur í 30 ár.
En hvað er svona merkilegt við Delorean?
„Flestir þekkja bílinn úr bíómyndinni en það er svo margt við hann. Stálið, dyrnar og öll sagan á bak við hann“
Ferðalagið um heiminn hófst í Þýskalandi í september og lýkur því í Belfast á Norður-Írlandi í lok maí, en Delorean er einmitt framleiddur í Dunmurry þar í landi.
„Flestir halda að þetta séu amerískir bílar. Þeir voru reyndar smíðaðir fyrir amerískan markað en hafa alla tíð verið framleiddir í Evrópu,“ segir Hank.
Nánari upplýsingar um ferðalagið um Ísland má finna hér.