„Flækjustigið er orðið of hátt“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það verður ekki annað sagt en að þetta sé orðinn talsverður frumskógur af ýmsum gjöldum og reglum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um stefnu stjórnvalda varðandi skattlagningu á bifreiðar. Málshefjandi var Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og benti hún á að skattar á bifreiðar væru ekki aðeins háir heldur einnig margir og mjög mismunandi eftir bifreiðategundum og því eldsneyti sem þær notuðu.

Þannig féllu sex mismunandi skattar og gjöld á bensín og díselolíu; almenn vörugjöld, sérstakt vörugjald, kolefnisgjald, flutningsjöfnunargjald og virðisaukaskattur. Viðurkennt hafi verið að réttmæti vörugjaldanna væri að þau væru nýtt til uppbyggingar samgöngumannvirkja. Fjórir mismunandi skattar og gjöld féllu enn fremur á bifreiðar; bifreiðagjald, vörugjald, virðisaukaskattur og úrvinnslugjald. En með mjög misþungum hætti eftir bifreiðum.

Matvæli fyrir 100 þúsund manns á ári

„Vörugjöld á bifreiðar skiptast þannig í níu flokka miðað við koltvísýringsútblástur. Hæst geta vörugjöldin orðið 65% og ofan á það leggst síðan 24% virðisaukaskattur. Á síðasta kjörtímabili var mörgum af þessum sköttum breytt í nafni umhverfisins. Þá var til dæmis skattur á bensín hækkaður langt umfram dísel með því að miða bifreiðagjöld og vörugjöld nær eingöngu við skráðan koltvísýringsútblástur og einnig voru vörugjöldin hækkuð sérstaklega á bensínbíla,“ sagði Sigríður.

Hins vegar væri erfitt að greina með óyggjandi hætti útblástur koltvísýrings í útblæstri bifreiða og þar með að ákvarða vörugjaldið. Þekktar væru fréttir af fölskum upplýsingum bifreiðaframleiðenda í þessum efnum sem gerðu slík viðmið enn erfiðari. Þannig hafi íslenskum almenningi verið markvisst beint að díselbifreiðum fremur en bensínbifreiðum þrátt fyrir að díselbifreiðar væru dýrari og útblástur þeirra hættulegri heilsu manna.

Sigríður vakti einnig máls á því að ákveðið hefði verið á síðasta kjörtímabili að veita skattaívilnun vegna innflutnings á lífeldsneyti, eða etanóli og jurtaolíu til íblöndunar í eldsneyti. Þar væru í rauninni á ferðinni ekkert annað en matvæli. Þrátt fyrir að ekki lægu fyrir nein sérstaklega jákvæð umhverfisáhrif af slíkri íblöndun. „Miðað við þær upplýsingar sem ég hef aflað mér þá sýnist mér við núna vera að brenna í bílunum okkar mat sem gæti nært 100 þúsund manns á ári.“

Gríðarleg neyslustýring fælist þannig í því fyrirkomulagi sem til staðar væri. Einfalda þyrfti gjaldtökuna og draga úr neyslustýringu sem í augnablikinu beindi fólki að dýrari bifreiðum sem menguðu meira og stuðlaði enn fremur að innflutningi á dýrara eldsneyti. Sameina ætti alla vörugjaldsflokkana í eitt vörugjald til einföldunar og draga þannig úr óæskilegri neyslustýringu.

Stefnt að einföldu og skilvirku skattkerfi

Bjarni Benediktsson sagði að með réttu mætti segja að heildaryfirsýn á skattlagningu á ökutæki og eldsneyti væri talsvert örðug vegna ýmiss konar undanþága og ívilnana sem skekktu jafnvel samkeppnisstöðu á milli atvinnugreina. „Kveðið er á um skattlagningu ökutækja og eldsneytis í sjö mismunandi lagabálkum og flækjustigið er orðið of hátt.“

Sagðist Bjarni telja fulla þörf á endurskoðun á núverandi löggjöf, bæði ökutækja og eldsneytis, og hefði fyrir vikið sett á laggirnar starfshóp fyrr á árinu í þeim tilgangi. Tillagna væri að vænta um mitt sumar. Markmiðið væri að stuðla að einföldu og skilvirku skattkerfi með jafnræði og gegnsæi að leiðarljósi þar sem stuðlað væri að orkusparnaði. Umhverfissjónarmið væru enn fremur mikilvæg í þessu sambandi og að ríkissjóði væru tryggðar eðlilega tekjur til uppbyggingar og viðhalds samgöngumannvirkja.

„Öll þessi dæmi sem við höfum fyrir framan okkur í dag sýna að þótt menn hafi með góðum hug verið að reyna að ívilna hinum og þessum þá eru dæmin orðin óskaplega skrítin. Lágt ökugjald til dæmis á vörubifreiðar er til þess að, jú, efla þann þjónustuþátt í samfélaginu og gera mönnum auðveldara að koma sér upp sínum atvinnutækjum en munurinn á vörugjöldunum sem þar er um að ræða og því sem einstaklingar sitja uppi með er orðinn bara of æpandi. Sem aftur leiðir til þess að menn fara þá að stofna hlutafélög um eigin bifreiðakaup og skatturinn eyðir miklu púðri í að elta þetta allt saman uppi til þess að ganga úr skugga um að rétt sé greint frá,“ sagði fjármálaráðherra.

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina