Ekki megi hjóla á ákveðnum leiðum

Hellisheiði. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Hellisheiði. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Ernir Eyjólfsson

Í þingsályktunartillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2015 – 2018 sem liggur fyrir á Alþingi er stefnt að því að umferð hjólandi vegfarenda verði ekki leyfð meðfram umferðarmestu þjóðvegum landsins. Samhliða því er gert ráð fyrir að möguleikar á notkun hjólreiða sem samgöngugreinar á höfuðborgarsvæðinu og á suðvesturhorni landsins verði efldir verulega.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita fé til þessarar uppbyggingar. Miðað er við að kostnaðarþátttaka Vegagerðarinnar verði allt að helmingi kostnaðar nema á langleiðum utan höfuðborgarsvæðisins þar sem kostnaðarþátttaka getur orðið meiri. Með stígagerðinni er líkt og áður kom fram gert ráð fyrir að umferð hjólandi ökumanna verði ekki leyfð á viðkomandi vegum.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Jónasar Snæbjörnssonar, framkvæmdastjóra Vegagerðarinnar, á málþingi um göngu- og hjólastíga sem haldið var í Salnum í Kópavogi fyrir hádegi í dag. Fjallaði Jónas um aðkomu og hlutverk Vegagerðarinnar að hjóla- og göngustígum.

Þingsályktunartillögunni var útbýtt 27. maí síðastliðinn og tekið til fyrri umræðu síðastliðinn sunnudag. Nú er það komið til umhverfis- og samgöngunefndar og gert er ráð fyrir því að hún verði afgreidd þaðan 18. júní nk. Þrjátíu og sjö umsagnir hafa verið sendar inn vegna tillögunnar. 

Öruggara að koma hjólreiðafólki á betri leið

Vegagerðin kemur til sögunnar þar sem stígar þvera þjóðvegi. Þar getur verið um að ræða undirgöng, göngubrýr eða gangbrautir með eða án umferðarljósa. Stofnkostnaður við gerð stíganna er greiddur að fullu af Vegagerðinni en rekstur þeirra af viðkomandi sveitarfélagi.

Jónas fjallaði meðal annars um fyrrnefnda þingsályktun og að banna ætti umferð hjólreiðafólks á nokkrum stöðum. Í því samhengi sagði hann að væri öruggara út frá umferðarlegu sjónarhorni að reyna að koma hjólreiðafólki á betri leið en að þeir þyrftu að vera úti á vegum á miklum hraða.

Í fyrra og í ár er gert ráð fyrir 100 milljónum til gerðar göngubrúa og undirganga en áætlunin gerir aftur á móti ráð fyrir að upphæðin verði 140 milljónir 2017 og 2018, samtals 280 milljónir. Þá er gert ráð fyrir því að framlag til gerðar hjóla- og göngustíga verði 300 milljónir á næsta ári en það var 200 milljónir í fyrra og verður einnig í ár.

Jónas sagði að eðlilegt væri að miða við að gera hjólastíga greiðfæra svo ekki þurfi að hjóla á þjóðveginum. Ákveðið var að vera ekki með stíga meðfram Hafnarfjarðarvegi, Reykjanesbraut og Miklubraut heldur gera stíga meðfram Suðurlandsbraut og í Fossvogi. Sagðist Jónas telja að fljótlega væri hægt að banna hjólreiðar á þessum vegum.

Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir að frá og með 2017 verði heimilt að styrkja stígagerð um allt land. Utan vel afmarkaðs þéttbýlis á langleiðum komi til greina að Vegagerðin leggi til hærri upphæð en 50%, t.d. frá Hafnarfirði og út á Suðurnes þar sem sveitarfélög hafi ef til vill ekki ráðrúm til að leggja dýra stíga.

Frétt mbl.is: Fari ekki sömu leið og útrásarvíkingarnir

Frétt mbl.is: Oftast kvartað yfir hjólreiðafólki

mbl.is

Bloggað um fréttina