Það er ekki bara að Volkswagen eigi á brattann að sækja í Bandaríkjunum í kjölfar útblásturshneykslis sem fyrirtækið hefur ekki enn bitið úr nálinni með. Nú er einnig herjað á annan þýskan bílasmið þar í landi, Mercedes-Benz, líka vegna dísilbíla.
Fyrir milligöngu lögmannastofunnar Hagens Bergman hefur verið hrundið af stað hópmálsókn á hendur Mercedes í Bandaríkjunum. Umkvörtunarefnið er meint mikil mengun í útblæstri bílanna.
Í stefnunni er því haldið fram, að fyrirtækið hafi vísvitandi forritað vélarnar til að þær losuðu hættulega mikið af nituroxíði við lágt hitastig. Því til viðbótar hafi bílaframleiðandinn líklega notað „blekkingarbúnað“ til að blekkja mengunarmælitæki.
„Í nánast öllum prófunum á götum úti náði BlueTEC-tækni Mercedes næstum aldrei þýðingarmiklum árangri við að draga úr NOx-losun í útblæstri,“ segir lögmannsstofan í bréfi til Mercedes-Benz. „Í venjulegum akstri sýndu mælitækin NOx-losun frá 4,5 og upp í 30,8 sinnum meira magn en lög leyfa.“
BlueTEC er síubúnaður sem notar kristallað köfnunarefnissamband (urea) sem finnst uppleyst í þvagi. Því er dælt inn í síurnar til að losa útblásturinn við skaðlega mengun. Er það notað í mörgum bílum Mercedes og Daimler. Í stefnunni eru til að mynda tilgreind meðal annars módelin ML, GL, E-Class, R-Class, S-Class, GLK, GLE og Sprinter.
Lögmannastofan Hagens Berman lék stórt hlutverk í málshöfðun á hendur Toyota vegna galla í bensíngjöf og á hendur General Motors vegna gallaðra kveikjulása.
Af hálfu Mercedes-Benz er stefnunni mótmælt og sver fyrirtækið af sér öll bellibrögð. „Við teljum þessa hóplögsókn tilefnislausa. Afstaða okkar er óbreytt: Platbúnaður til að lækka útblástur er ekki notaður í bílum Mercedes-Benz,“ segir í tilkynningu frá þýska bílasmiðnum.
agas@mbl.is