Corolla áfram heimsmeistari

Toyota Corolla
Toyota Corolla

Þrátt fyrir lítils háttar samdrátt í sölu það sem af er árinu 2016 hefur Toyota Corolla mikið forskot á VW Golf og Ford F-seríuna hvað varðar söluhæstu bílamódelin í ár. Óhætt er að segja að Corolla sé heimsmeistarinn.

Af vondum siðum koma góð lög, segir orðtakið og má líklega yfirfæra það yfir á bílkaupendur um veröld víða. Alveg óháð því hverjir keppinautarnir eru þá var Corolla í efsta sæti þegar teknar höfðu verið saman tölur yfir sölu einstakra módela á heimsvísu frá áramótum til loka apríl.

Og rétt eins og í fyrra urðu sömu bílarnir í öðru og þriðja sæti nú sem þá. Niðurstaðan var sú, að Toyota Corolla hafði farið í 431 þúsund eintökum, VW Golf í 358 þúsund og Ford F-serían í 310 þúsund en pallbílaserían vinsæla frá Ford er og hefur verið mest seldi bíll Bandaríkjanna um langt árabil.

Þessi þrjú bílamódel eiga það sameiginlegt að vera goðsagnir meðal bíla. Saga Ford F-seríunnar nær aftur til ársins 1948, saga Corolla til 1966 og í þessu samhengi er Golf næstum nýgræðingur en hann rann fyrst af færiböndum bílasmiðja vorið 1974.

Sölutölurnar sem hér er rætt um eru niðurstöður af samantekt nýskráninga alls 2.700 bílamódela í 140 mestu bílasölulöndum heims. Alls höfðu verið seldar 30,3 milljónir fólksbíla við lok fyrsta ársþriðjungs sem er 2,7% aukning frá sama tímabili í fyrra, 2015.

Fyrir utan fyrrnefnda bíla sem urðu í toppsætunum þremur er Ford Focus í fjórða sæti með 261 þúsund eintök og í fimmta sæti VW Polo með 261 þúsund bíla. Athyglisvert er, að hinn uppfærði Toyota RAV4 hefur skotist upp fyrir bæði Honda CR-V og Toyota Camry frá í fyrra. Er jepplingurinn frá Toyota í sjötta sæti með 221 þúsund eintök seld, CR-V með 220 þúsund og Camry 219 þúsund.

Og svo færðist Honda Civic upp um átta sæti frá 2015 eftir kröftuga sölu í Bandaríkjunum og er í 13. sæti með 198 þúsund seld eintök. Þar er hann næstsöluhæsti einkabíllinn á eftir Toyota Camry. Í níunda sæti er Hyundai Elantra með 212 þúsund seld eintök og Wuling Hong Guang í tíunda en hann fór í 207 þúsund eintökum á tímabilinu, sem er nokkur samdráttur frá í fyrra. Þar er um að ræða fjölnotabíl með uppruna frá General Motors. Er sami bíll til dæmis seldur í Indlandi sem Chevrolet Enjoy.

Vinsælasti einkabíllinn í Kína á fyrsta ársþriðjungi var Volkswagen Lavida og situr hann í 11. sæti á heimslistanum með 201 þúsund eintök. Næstu bílar eru Chevrolet Silverado (200 þús.), VW Jetta í 14. sæti (193 þús.) og í 15. sæti er Toyota Hilux. Af þeim kunningja Íslendinga voru 187 þúsund eintök nýskráð á árinu.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina