Þeim sem finnst gaman að skoða landið með hjólhýsi í eftirdragi geta stundum rekið sig á að hjólhýsið kemst ekki endilega yfir vegi og slóða sem bíllinn ræður við.
Kröftugur og hækkaður jeppi getur komist hvert á land sem er en öxullinn og dekkin á dæmigerðu hjólhýsi henta ekki alltaf til notkunar annars staðar en á rennisléttu malbiki.
Þeir sem láta ekkert stoppa sig í ævintýrunum hafa örugglega gaman af vagninum hér til hliðar, frá ástralska framleiðandanum Bruder.
EXP-6 Off Road Trailer heitir þetta hjólhýsi og hefur verið hannað og smíðað gagngert til notkunar utan vega. Fjöðrunin er úthugsuð og á að ráða vel við urð og grjót og ytra byrðið er allt sterkbyggt og kraftalegt að sjá.
Að innan tekur síðan við lúxus í hólf og gólf. Þar er meðal annars sjónvarpsskjár sem getur vísað bæði inn og út, ef fólk vill horfa á imbann og njóta góða veðursins um leið. Þá er kælir og vínrekki í hjólhýsinu og örlítið baðherbergi með sturtu.
Eldhúsið opnast utan frá og hefur kokkurinn góða aðstöðu undir skyggni til að galdra fram kræsingar.
Nánari upplýsingar má finna á Bruderx.com ai@mbl.is