Sala Heklu á tengiltvinnbílum, þ.e. bílum sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni, var 448% meiri fyrstu sex mánuði ársins 2016 en á sama tímabili í fyrra.
Algjör sprenging hefur orðið í sölu vistvænna bifreiða hjá umboðinu. Það sem af er árinu hefur Hekla þegar selt fleiri tengiltvinnbíla en allt árið 2015.
„Íslenskir bíleigendur eru að verða æ meðvitaðri um kosti vistvænna bifreiða og þessi gríðarlega aukning í sölu tengiltvinnbíla hjá HEKLU ber þess skýr merki. HEKLA er leiðandi á þessum markaði, bæði hvað varðar fjölda vörumerkja sem og fjölda tegunda og við höldum ótrauð áfram að þjóna viðskiptavinum okkar um allt land,“ segir Friðbert Friðbertsson forstjóri Heklu í tilkynningu.
Söluhæstur tengiltvinnbíla er Volkswagen Golf GTE og alls eru bílar frá Heklu með 55% markaðshlutdeild í flokki tengiltvinnbíla, segir í upplýsingum frá umboðinu.
Þegar taldir eru saman rafbílar og tengiltvinnbílar er Volkswagen Golf í efsta sæti með 65 eintök seld á fyrri helmingi ársins. Í öðru sæti er Nissan Leaf með 60 eintök og í því þriðja Mitsubishi Outlander með 42 eintök.
Þar á eftir er Volvo XC90 með 29 eintök, Volkswagen Passat með 27, Audi A3 með 15, Kia Soul með 13 og Mercedes-Benz GLE með 10 eintök. Í níunda sæti er svo Volkswagen Up! með sjö seld eintök og sami fjöldi seldist á fyrri helmingi ársins af tengiltvinnbílnum Porsche Cayenne.
Aðeins eitt eintak hefur selst af Tesla Model S á fyrri helmingi ársins og eitt eintak af Mercedes-Benz GLC.