Evrópusambandið „hvatti til“ mengandi bílaframleiðslu

Bílaframleiðandinn Volkswagen varð uppvís að útblásturssvindli í fyrra. Í kjölfarið …
Bílaframleiðandinn Volkswagen varð uppvís að útblásturssvindli í fyrra. Í kjölfarið hafa yfirvöld í Evrópu látið framkvæma ítarlegar rannsóknir á mengun díselbifreiða. /AFP

Með því að rannsaka ekki útblástur bifreiða með fullnægjandi hætti, „hvöttu“ stjórnvöld í Evrópu bílaframleiðendur til að framleiða díselbifreiðar sem valda meiri mengun en reglur Evrópusambandsins heimila. Þetta eru niðurstöður franskrar nefndar sem birtust í skýrslu sem kom út á föstudag. Frá þessu er greint á vef EU Observer.

Í skýrslunni segir að markaðseftirlit með útblæstri díselbifreiða sem voru í sölu hafi verið „stórlega ófullnægjandi.“

„Skortur á gagnsæi og eftirlitsathugunum af hálfu hins opinbera, á losun frá ökutækjum sem seld voru innan Evrópusambandsins, hvatti til svika sem ber að leiðrétta,“ segir jafnframt í skýrslunni.

Það var Segolene Royal, umhverfisráðherra Frakklands, sem setti nefndina á fót í október í fyrra í kjölfar <span>út­blást­urs­s­vindls­ </span>Volkswagen. Svindlið vakti grunsemdir um að svipuð hegðun væri í gangi á meðal annarra bílaframleiðenda.

<strong><a href="/frettir/knippi/3536/" target="_blank">Sjá fyrri fréttir mbl.is um svindl Volkswagen</a></strong>

Nefndin var skipuð starfsmönnum umhverfisráðuneytisins, þingmönnum franska þingsins, fulltrúum rannsóknarstofnana, umhverfis- og neytendahópa auk fulltrúa bílaiðnaðarins.

Að tilmælum nefndarinnar var gerð athugun á losun 86 bifreiða. Líkt og fyrri athuganir sem framkvæmdar höfðu verið af þýskum og breskum yfirvöldum leiddi athugunin í ljós að margir díselbílanna menguðu margfalt meira á götum úti en athuganir á rannsóknarstofum höfðu leitt í ljós. 

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að bílaframleiðendur notuðu „með reglubundnum hætti“ temprunarbúnað, sem slökkti á eða lækkaði niður í síukerfi losunar, undir ákveðnum aðstæðum.

Notkun slíks búnaðar er óheimil samkvæmt Evrópulöggjöf með þeirri undantekningu þegar búnaðurinn er notaður til að vernda vél bifreiðar. Höfundar skýrslunnar komast að þeirri niðurstöðu að þessari undantekningu hafi verið beitt mjög frjálslega.

Nefndin krafði bílaframleiðendur útskýringa á því hvers vegna stundum væri slökkt á síukerfinu við eðlileg akstursskilyrði en voru nokkrir framleiðendanna ósamvinnuþýðir. Gat nefndin því ekki fyllilega sýnt fram á að um væri að ræða ólöglega notkun temprunarbúnaðar en gat heldur ekki útilokað það.

Það voru niðurstöður nefndarinnar að bílaframleiðendur hönnuðu díselbíla með þeim hætti að bílarnir stæðust fyrst og fremst slíkar athuganir, en ekki til að standast kröfur Evrópusambandsins við venjulegar aðstæður.

„Áhrif þessarar nálgunar hvað varðar losun skaðlegra efna og áhrif þeirra á gæði andrúmslofts nærri vegum virðast hafa verið algjörlega hundsuð,“ segir í skýrslunni.

Í skýrslunni er einnig rýnt í það hvar bílarnir voru vottaðir en flestir þeirra voru vottaðir í Vestur-Evrópu. Ekki virtist þó vera fylgni milli þess hvaða yfirvald framkvæmdi prófunina samanborið við hver frammistaðan var á götum úti.

Upprunalega átti skýrslan að koma út í júní en útgáfu hennar var frestað nokkrum sinnum. Sambærilegar skýrslur Breta og Þjóðverja komu út í apríl og voru niðurstöður þeirra í takt við niðurstöður þeirrar frönsku.

mbl.is

Bloggað um fréttina