Fanga refsað fyrir brot löggunnar

Hraðasjá við fjölfarinn franskan veg.
Hraðasjá við fjölfarinn franskan veg.

Þrátt fyrir að hafa setið á bak við lás og slá þegar umferðarbrot, sem lögreglumenn frömdu á bíl hans, hefur sakamaður í Frakklandi verið sviptur ökuréttindum vegna brotanna.

Þegar sektir voru skrifaðar á bíl mannsins var hann að sönnu í fangelsi að afplána dóma vegna brota frá 2013 en það ár fundust í hinum öfluga BMW-bíl bæði nokkuð af vopnum og fíkniefni.

Lögreglan gerði bifreiðina upptæka og hafa fulltrúar hennar haft afnot af henni. Vegna akstursins hlóðust upp hraðasektir á bílinn á sama tíma og eigandinn taldi dagana í dýflissunni í bænum Villeneuve-les-Maguelone.

Bæði lögregla og tollurinn hafa frá árinu 2011 haft heimild til að gera upptæk farartæki úr afbrotum og brúka þau eftir að málaferlum er lokið og engin ástæða lengur til að halda þeim í geysmlu. Hafa embættin getað notað þau í erindum sínum þótt áfram væru þau skráð á eigendur sína.

Skemmist bílar við slíka notkun geta eigendur fengið bætur vegna þess er þeim er sleppt úr fangelsi. Það er hins vegar ekkert um það í lögunum hvernig taka skuli á umferðarbrotum þessara bíla, að sögn blaðsins Midi Libre.

Lögmaður sakamannsins hefur mótmælt hraðasektunum og sviptingu ökuréttindanna af þeirra sökum. Brotin hafi verið framið af lögreglunni og við hana væri að sakast, ekki bíleigandann.

mbl.is