Það virðist sem reglulega birtist á netinu nýjar töfralausnir sem eiga að snarminnka eldsneytiseyðslu bíla, og gott ef ekki líka hreinsa og bæta vélarnar.
Eitt slíkt myndband birtist á Facebook-síðum Íslendinga fyrr í sumar en þar greinir Bandaríkjamaður nokkur frá því af mikilli sannfæringu hvernig hann hefur komið fyrir vetnisbúnaði í bílnum sínum og þannig snarminnkað bensíneyðsluna. Allt sem þarf er eimað vatn, rafgreiningarskaut og 12 volta rafhlaða sem breytir vatninu í vetni. Vetnið ferðast svo eftir leiðslum inn í sprengihólf vélarinnar.
Galdurinn, segir maðurinn, felst í því að þegar vetnið og bensínið blandast saman þá brenni vélin eldsneytinu í 100% bruna. Hann heldur því fram að bílvél brenni venjulega aðeins 30% af bensíninu en 70% fari til spillis og hverfi út um útblástursrörið.
Til viðbótar við eldsneytissparnaðinn á vetnisgræjan að auka tog og hestaflafjölda vélarinnar.
„Þetta eru greinilega svik. Hann annað hvort veit ekki hvernig brunavélar virka eða treystir því að áhorfendur viti það ekki. Ekki að það sé langsótt – annað lögmál varmafræðinnar hefur vafist fyrir mörgum,“ segir Ágústa S. Loftsdóttir hjá Orkustofnun.
Ágústa hefur séð fjölmörg myndskeið af svipuðum toga og segir ætíð um blekkingu eða misskilning að ræða. „Í besta falli er virknin í þessu tæki engin eða sem næst engin. Þó verður að muna lyfleysuáhrifin, en það er vel þekkt að þegar menn setja svona tæki í bílana sína þá fá þeir allt í einu mikinn áhuga á eyðslunni og fara ósjálfrátt að aka á mjög sparneytinn hátt svo að eyðslutölurnar lækka. Það eru í raun bestu og mestu áhrifin sem svona græja getur haft.“
Finnur Ágústa margt bogið við staðhæfingarnar í myndbandinu. „Hann talar um að aðeins 30% eldsneytisins brenni í brunahólfi vélarinnar. Þetta er rangt, en ef þetta væri rétt gæti hann bætt gæði brunans með því að skipta vélinni út fyrir arinn,“ útskýrir hún. „Hið rétta er, að þegar 100% af eldsneytinu brenna inni í brunahólfinu, þá skila einungis 30% af orkunni sér út til hjólanna. Þetta hefur ekkert með brunann að gera, heldur er þetta afleiðing þess að við erum að umbreyta varmaorku í vélræna orku. Þetta hljómar eins og hræðileg nýtni sem ætti að vera hægt að bæta, og það er möguleiki, en bara um örfá prósent. Jafnvel bestu brennsluvélar – og þá er ég að tala um risastórar vélar um borð í stærstu skipum eða dísilrafstöðvar – ná ekki meira en 50-60% nýtni. Og það er undir kjöraðstæðum, með vélar sem ganga á föstum hraða og skila föstu afli. Ef þú hefur einhverntíman kitlað pinnann á bílnum þínum, þá veistu að bílvélar ganga almennt ekki þannig, enda er nýtni sumra bílvéla lækkuð viljandi til að ná meira afli.“
Er aðeins ein leið til að vetnis-undratækið geri það sem kynnirinn lofar. „Það væri ef nógu mikið vetni færi inn í brunahólfið til að auka hitastig brunans töluvert. Ef það gerist – sem ég tel raunar ólíklegt miðað við það sem sést á myndbandinu – þá er smávegis möguleiki á nokkurra prósenta aukningu í nýtni. En það er ekki víst að það myndi virka, og er þá líka verið að láta vélina ganga við mun hærra hitastig en hún er hönnuð fyrir, sem er varla skynsamlegt. Ég myndi alltént sjálf velja að spara eldsneyti á annan hátt.“ ai@mbl.is