Brýnt að ráðast í aðgerðir

Uppsöfnuð viðhaldsþörf á vegum landsins er á annan tug milljarða …
Uppsöfnuð viðhaldsþörf á vegum landsins er á annan tug milljarða króna. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Innanríkisráðherra kynnti upplýsingar um umferðaröryggi á ríkisstjórnarfundi í dag. Þar leggur ráðherra áherslu á að fyrirliggjandi samgönguáætlun verði fjármögnuð að fullu.

Engar ákvarðanir voru teknar um umferðaröryggismál á fundinum. 

Á minnisblaðinu kemur fram að þrátt fyrir ýmsar aðgerðir í samgöngumálum sem miða að því að bæta umferðaröryggi vanti mikið upp á að ná markmiðum um fækkun banaslysa og alvarlegra slysa.

Langflest umferðarslys verði við útafakstur í dreifbýli. Meginorsök þeirra sé of hraður akstur miðað við aðstæður en einnig séu ökumenn oft ekki með fulla athygli við aksturinn.

26 milljarða tap vegna slysa

Á síðasta ári létust 16 í umferðarslysum hér á landi, þar af 7 útlendingar, og 178 slösuðust alvarlega, þar af 42 útlendingar. Tap samfélagsins af umferðarslysum hefur verið áætlað um 660 milljónir króna á hvert banaslys og 86 milljónir króna á hvert alvarlegt umferðarslys, samkvæmt minnisblaðinu. Samtals var tapið árið 2015 því tæpir 26 milljarðar króna vegna þessara slysa.

Uppsöfnuð þörf á annan tug milljarða

Einnig kemur þar fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf á vegum á landinu sé á annan tug milljarða króna og að á yfirstandandi ári hafi takmörkuðu fé verið aflögu til umferðaröryggismála. „Fé skortir til þess að bregðast strax betur við nýjum áskorunum s.s. að auka fræðslu til vaxandi fjölda erlendra ríkisborgara um malarvegi, einbreiðar brýr og jafnvel um ótryggt vetrarveður. Einnig þarf að bregðast við auknum hjólreiðum og farsímanotkun undir stýri og fjölga áningastöðum,“ segir á minnisblaði ráðherra.  

Samgönguáætlun fjármögnuð að fullu 

„Brýnt er að ráðast nú þegar í ákveðnar aðgerðir á sviði umferðaröryggis. Minnisblað þetta er lagt hér fram til að fá umfjöllun ríkisstjórnar um hvernig megi fjármagna þær. Jafnframt er brýnt að tryggja að framtíðarstefnumörkun um umferðaröryggi eins og hún birtist í samgönguáætlun nái fram að ganga. Innanríkisráðherra leggur því áherslu á að fyrirliggjandi samgönguáætlun verði fjármögnuð að fullu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina